Eldur blossaði upp er húddið var opnað

Jeppi sem varð alelda á Siglufjarðarvegi fyrr í kvöld er gjörónýtur. Að sögn lögreglu drap bíllinn á sér og þegar ökumaður opnaði húddið blossaði eldurinn upp. Bíllinn er 2006 árgerð. Hjón voru í bílnum og sakaði þau ekki. Verið er að koma bílhræinu á flutningabíl og af staðnum en á meðan er önnur akreinin lokuð og umferð stjórnað um veginn.

Atvikið átti sér stað á Siglufjarðarvegi rétt við bæinn Sleitustaði.

„Það er allt brunnið sem brunnið getur í honum,“ segir fulltrúi lögreglunnar á Sauðárkróki sem var á vettvangi er mbl.is ræddi við hann. „Það drapst á bílnum og þegar húddið var opnað blossaði upp eldur,“ hefur lögreglan eftir ökumanni bílsins.

Slökkvilið kom á staðinn um 10-15 mínútum eftir að kviknaði í bílnum. Hann var þá ónýtur en var kældur niður, að sögn lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert