Sinueldurinn í Laugardal breiðist út

Slökkviliðsmenn úr slökkviliði Súðavíkur að störfum á vettvangi í gær.
Slökkviliðsmenn úr slökkviliði Súðavíkur að störfum á vettvangi í gær. Ljósmynd/Ómar Már Jónsson

Sinueldurinn á Hrafnabjörgum í Laugardal í Súðavíkurhreppi hefur breiðst mikið út og að sögn Sigurjóns Samúelssonar, bónda á Hrafnabjörgum, hefur svæðið sem sinueldurinn hefur náð yfir tvöfaldast.

Sinueldurinn, sem var einangraður í Hrossatanga við Laugarbólsvatn, hefur nú komist út fyrir það svæði og stefnir óðfluga til austurs í átt að veginum inn í Laugardal. Þar er veiðihús, sem Sigurjón segir að geti verið í hættu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið vestur og nálgast Djúp. Auk þess hefur slökkvilið Ísafjarðarbæjar verið kallað á vettvang til að berjast við eldinn ásamt slökkviliði Súðavíkurhrepps, sem hefur barist við eldinn síðan á föstudag.

„Við erum á leiðinni með dælu, slöngur og mannskap,“ sagði Þorbjörn Jóhann Sveinsson, slökkviliðsstjóri Ísafirði, en óskað var eftir aðstoð liðsins og eru fimm slökkviliðsmenn að verða komnir inn í Laugardal, en þeir lögðu af stað um klukkan 17:45 frá Ísafirði.

Svæðið er afar þurrt vegna regnleysis í sumar og ekkert hefur rignt þar í dag, þrátt fyrir vætu í veðurkortum. Töluverð gjóla er á svæðinu.

„Þetta er feikilegur reykur og stígur hátt til lofts,“ sagði Sigurjón sem óttast að eldurinn nái upp fyrir veg og upp í fjallshlíðar.

Hér sést hvernig eldurinn hefur leikið svæðið.
Hér sést hvernig eldurinn hefur leikið svæðið. Ljósmynd/Ómar Már Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert