Aganefnd KSÍ tekur árásina fyrir

Aganefnd Knattspyrnusambands Íslands fundar um lík­ams­árásina í fót­bolta­leiknum á Hell­is­sandi á morgun, berist henni dómaraskýrsla fyrir þann tíma. Að öðrum kosti verður málið tekið fyrir á þriðjudag í næstu viku.

Engin hefðbundin agaviðurlög eru við brotum af þessu tagi en samkvæmt upplýsingum frá KSÍ telst brotið óvenjulegt miðað við þær upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum og sagðist nefndarmaður ekki muna eftir nokkru sambærilegu.

Flogið var með leikmanninn á sjúkra­hús eft­ir átök í knatt­spyrnu­leik á milli Snæ­fells­ness og Sindra frá Hornafirði í 2. flokki karla.

Pilt­ur­inn sem slasaðist er leikmaður Snæ­fells­ness en samkvæmt heimildum mbl.is byrjaði málið með því að leikmaður Sindra, sem er fæddur árið 1998, braut á honum. Aukaspyrna var dæmd fyrir og þegar pilturinn tók hana ýtti hann við brotlega leikmanninum sem við það missti stjórn á skapi sínu og sló til piltsins sem hörfaði undan og datt. Þá voru högg og spörk látin dynja á honum þar sem hann lá í jörðinni.

Framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Sindra segir að rætt verði við piltinn og farið yfir málið. Brotið segir hann ekki heyra beint undir siða- eða agareglur félagsins.

Samkvæmt upplýsingum var pilturinn hafður undir eftirliti á barnadeild Hringsins í nótt en er nú á batavegi.

Leikmenn beggja liða voru nær allir kallaðir til skýrslutöku hjá Rannsóknarlögreglunni í gær auk dómara leiksins og annarra vitna. Að sögn lögreglu hefur formleg kæra ekki verið lögð fram í málinu.

Sjá fyrir fréttir mbl.is:

Á batavegi eftir spark í höfuðið

Hlaut spörk í andlitið

Fluttur með þyrlu eftir slagsmál

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert