Fordæmdi brot beggja aðila

Frá fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kvöld.
Frá fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Mynd/AFP

Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, fordæmdi í kvöld brot Ísraela og Palestínumanna á alþjóðlegum mannúðarlögum á opnum fundi Öryggisráðs SÞ um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Sagði Gréta ennfremur að framferði Ísraelshers gagnvart Gaza vekja upp spurningar um hvort meðalhófs sé gætt í samræmi við alþjóðalög og skuldbindingar. 

„Upphaf og endir átakanna felst í hernáminu“

Fastafulltrúi sagði í ræðu sinni að upphaf og endir átakanna og mannfalls síðustu daga fælist í hernámi Ísraelsstjórnar á Gaza og Vesturbakkanum, þar með talið Austur-Jerúsalem. Sagði Gréta að hernámið stæði enn yfir, þrátt fyrir að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefði fyrir tíu árum síðan gefið það álit sitt að veggurinn sem reistur var á hernumdu svæðunum bryti í bága við alþjóðalög.

„Hernámið hefur enn áhrif á daglegt líf Palestínumanna og hamlar ferðafrelsi þeirra og dregur úr lífsgæðum. Við skulum einnig minnast þess að átta ár eru síðan umsátrið um Gaza hófst með þeim skelfilegu afleiðingum sem af því hefur leitt,“ sagði Gréta í ræðu sinni. 

Sagði hún enn fremur að ástandið á Gaza kallaði á tafarlaust vopnahlé til að skapa grundvöll að varanlegri lausn og að öryggisráðið axli ábyrgð sína og tæki á málinu með afgerandi hætti. Jafnframt fagnaði Gréta framlagi Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, til að miðla málum og skoraði á hann að halda áfram að beita sér að varanlegri lausn.

Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.
Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert