Bílbeltin bjarga mannslífum

Þeir sem ekki eru spenntir í bílbelti eru mun líklegri til að slasast alvarlega og jafnvel láta lífið í bílslysi. Miðað við slysatölur undanfarinna ára má ætla að ýmsir þeirra sem létust í umferðinni hefðu komist lífs af með því að nota öryggisbelti. Má þar nefna banaslys sem varð um verslunarmannahelgina í fyrra.

Samgöngustofa bendir á þetta, og hvetur um leið ökumenn til að nota öryggisbelti sama hversu langt eða stutt er farið. Framundan nú er ein stærsta ferðahelgi sumarsins svo vænta má aukinnar umferðar á vegum landsins.

Um síðustu verslunarmannahelgi létust tvær stúlkur í bílveltu sem varð á Suðurlandsvegi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að stúlkurnar, sem létust, hafi kastast út úr bifreiðinni þegar hún valt en þær hafi ekki verið í bílbeltumÞá segir ennfremur í skýrslunni að vanhöld á bílbeltanotkun sé ein af algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Nefndin ítrekar fyrri ábendingar sínar um að ökumenn og farþegar noti alltaf bílbelti, hvort sem er í fram- eða aftursæti. 

Höggþyngdin 130-faldast

Þá má geta þess að í nýlegri könnun sem gerð var á bílbeltanotkun ökumanna og farþega í framsæti við gjaldskýlið í Hvalfjarðargöngum, kom í ljós að 4% ökumanna og 3% farþega voru ekki með beltin spennt. Tryggingafélagið VÍS framkvæmdi könnunina og segir frá niðurstöðunum í dag.

Skoðuð var beltanotkun hjá 2.816 einstaklingum, 1.701 bílstjórum og 1.115 farþegum. 95 þeirra voru ekki með bílbeltin spennt.

Þrátt fyrir að allar rannsóknir sýni fram á mikilvægi bílbeltis eru margir sem ekki nota þennan sjálfsagða öryggisbúnað. Búnað sem tekur tvær til þrjár sekúndur að festa á sig og getur bjargað lífi ökumanns og farþega.  Árið 2012 voru 57% þeirra sem létust í umferðarslysum ekki með bílbeltin spennt. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að þeir hefðu allir lifað slysið af hefðu þeir verið í bílbeltum,“ segir á vef VÍS.

Miklir kraftar leysast úr læðingi við umferðarslys.  Á 90 km/klst hraða getur höggþyngd einstaklings eða hlutar 130 faldast þannig að höggþyngd 60 kg einstaklings getur orðið nærri 8 tonnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert