„Viðbjóðslegasta kvikindi sem ég hef séð“

Skógarmítill. Til samanburðar er málband.
Skógarmítill. Til samanburðar er málband. mbl.is/Alfon Finnsson

Kötturinn Louis kom heim með heldur miður geðslegan laumufarþega. Alma Geirdal, eigandi kattarins, segir að dóttirin á heimilinu hafi orðið vör við bólu á kettinum, sem reyndist vera skógarmítill. Þetta mun vera fyrsta þekkta dæmið um skógarmítil á Snæfellsnesi, en Alma er búsett í Ólafsvík.

„Þetta er viðbjóðslegasta kvikindi sem ég hef séð á ævi minni,“ segir Alma um skógarmítilinn. „Mítillinn var orðinn svo stór að það var eins og kötturinn væri með bólu. Við kíktum á þetta, þá sá ég strax að þetta var skógarmítill.“ Alma hefur séð þónokkuð af skógarmítlum hjá systur sinni í Svíþjóð. „Hundurinn hennar kemur stundum með 20 til 30 svona kvikindi á sér.“

Ekki eins hættulegur dýrum

Hún segir að dýralæknir hafi gefið þær ráðleggingar að losa skógarmítilinn mjög varlega af kettinum með flísatöng. „Það var ekkert auðvelt og ekki algengt að fólk nái hausnum af, hvorki af sjálfu sér eða dýrum.“

Alma segir skógarmítla þó ekki eins hættulega dýrum og mannfólki. „Það er eins og dýrin geti ráðið við þetta auðveldar en mannfólkið,“ sem getur verið í hættu að fá Lyme-sjúkdóm af biti skógarmítils, þó svo að dæmi þess séu ekki þekkt hérlendis.

Hún segir dýralækninn, sem hún hafði samband við, hafa sagt að tilfellið væri sennilega það fyrsta sem hefði greinst á Snæfellsnesinu öllu. „Við héldum lífi í skógarmítlinum svo hægt væri að senda hann til Náttúrufræðistofnunar,“ sem er að kanna útbreiðslu skógarmítla á landinu. „Við gáfum honum gras og vökva, hann var orðinn hálfgert gæludýr.“

Skógarmítlar eru að sögn Ölmu pínulitlir og svartir áður en þeir læsa sig í húð manna og dýra til að sjúga blóð. „Þá verða þeir svona stórir eins og á myndinni.“ Þrátt fyrir hremmingarnar hefur kötturinn það ágætt. „Mér sýnist ekkert vera að hrjá hann, hann er auðvitað með sár, en það virðist vera í lagi með hann,“ segir Alma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert