Stillti til friðar við herakademíu

Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á vegum íslensku friðargæslunnar að störfum í Líbanon …
Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á vegum íslensku friðargæslunnar að störfum í Líbanon árið 2007. Á myndinni sést glitta í 500 kílóa flugvélasprengju.

Jónas Þorvaldsson, sprengjusérfræðingur og fagstjóri köfunar hjá Landhelgisgæslu Íslands, lauk í sumar námi við sænsku alþjóðlegu herakademíuna (SWEDINT-Swedish Armed Forces International Centre) sem gerir hann hæfan til að annast stjórnun verkefna á sviði friðargæslunnar.

„Þetta er fyrst og fremst stjórnun og ákvarðanartaka undir pressu og tímaþröng. Inn í þetta spilast líka ákveðið áhættumat og uppbygging samfélaga sem orðið hafa fyrir áföllum,“ segir Jónas en honum var boðið af NORDEFCO (Nordisk Defence Cooperation) á námskeiðið sem kallaðist United Nations Civilian Staff Officer Course.

Stríðshrjáð land sett á svið

„Verkefni námskeiðisins gekk út á að vera stjórnandi í sviðsettri friðargæslusveit sem er á vettvangi,“ segir Jónas. 

„Til að komast inn í þetta nám þá þarftu að hafa verið partur af friðargæsluliði eða tekið þátt í sambærilegum verkefnum. Þú getur ekki stjórnað ef þú hefur ekki gengið upp stigann,“ segir hann en Jónas er nokkuð reyndur á þessu sviði og hefur margoft farið erlendis í verkefni á vegum friðargæslunnar. 

„Í heila viku var keyrð skrifborðsæfing. Við sátum inni á skrifstofu og héldum samráðsfundi. Þarna var verið að stilla til friðar í sviðsettu stríðshrjáðu ríki. Það var verið að búa til prógramm hvernig leysa mætti úr ýmsum málum. Þetta gekk aðallega út á friðsamlegar aðgerðir, finna lausnir á vandamálunum. Það er mikilvægur hluti þess að senda inn friðargæslulið, það þarf að vera prógramm sem fylgir því eftir hvað eigi að gera við fólkið að stríði loknu, hvernig eigi að skapa þeim vinnu, menntun og þar fram aftir götunum,“ segir hann. 

Fylkingar leggja niður vopn

Nánasti samstarfsmaður Jónasar í lokaverkefninu var yfirmaður fallhlífasveita ómanska hersins en Jónas segir það hafa verið áhugavert samstarf.

„Óman hefur aldrei tekið þátt í sambærilegum verkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna áður. Samstarfið gekk alveg ljómandi. Ég hef áður unnið með fólki frá Mið-Austurlöndum á vegum sprengjudeildarinnar. Menningin er öðruvísi en það var engu að síður mjög gott að vinna með honum,“ segir hann. 

„Við skrifuðum afvopnunarprógram í lokaverkefninu. Við þurftum að fá þrjár fylkingar til að leggja niður vopn, við þurftum síðan að gera vopnin upptæk. Jafnframt þarf fleira að gerast samhliða. Það þarf að sjá til þess að löggæslan sé byggð upp og það þarf að byggja upp her í landinu til að halda jafnvægi. Svo þarf að vinna að úrlausn fyrir fólkið og hermennina. Einhverja gátum við notað áfram í herinn í landinu en svo þarf að vera með prógramm tilbúið til að skapa atvinnu. Þetta gengur allt út á að reyna að gera fólið að  virkum þjóðfélagsþegnum aftur í friðsælu ríki aftur,“ segir Jónas en hann kveður mikið hafa verið lagt í námskeiðið. 

„Sem dæmi þá þurftum við að vera búnir að klára okkar prógramm áður en það urðu kosningar í landinu. Þá þurftum við að vera búnir að afvopna og róa ástandið,“ segir hann. 

Nýtist vel í starfinu hér heima

„Landhelgisgæslan hefur unnið náið með friðargæslunni í mörg ár og sprengjudeildin hefur sent sprengjusérfræðinga á vegum friðargæslunnar út í heim. Þetta nám er bara hluti af því að gera okkur hæfari í slíkum verkefnum. Gæslan leitast alltaf að því að gera starfsfólkið sitt hæfara,“ segir Jónas og bætir við að meira en nóg sé að gera hjá sprengjudeild Landhelgisgæslunnar. 

„Maður veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en þetta nám mun nýtast vel í mínu starfi hérna heima. Allt nám er gott og þarna var mikið komið inn á stjórnunarlegu hlið starfsins. Annars er ég nú kominn í barneignarfrí,“ segir Jónas að lokum. 

Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á vegum íslensku friðargæslunnar að störfum í Líbanon …
Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar á vegum íslensku friðargæslunnar að störfum í Líbanon árið 2007. Á myndinni sést glitta í 500 kílóa flugvélasprengju.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert