Lengsta samfellda lokun ganganna

Hvalfjarðargöng.
Hvalfjarðargöng. Sverrir Vilhelmsson

Hvalfjarðargöng verða lokuð vegna malbikunar í hálfan þriðja sólarhring núna í októbermánuði. 

Göngin verða lokuð frá klukkan 20.00 að kvöldi föstudagsins 17. október og opnuð að nýju fyrir umferð klukkan 06.00 að morgni mánudagsins 20. október.

Þetta er lengsta samfellda lokun ganganna frá upphafi og reyndar í fyrsta sinn sem slitlag er endurnýjað á akbrautum þar frá því þau voru opnuð í júlí 1998. Upprunalegt malbik endist þannig margfalt betur en ráð var fyrir gert.

„Vert er að vekja sérstaka athygli á ótrúlegri endingu slitlags í Hvalfjarðargöngum. Á sínum tíma var flutt inn kvars frá Noregi til að blanda í malbik fyrir akbrautir ganganna, ljósleitt og hart steinefni til að styrkja slitlagið. Áætlað var að eftir fimm til sjö ár þyrfti að fræsa og malbika á ný en það gekk aldeilis ekki eftir.

Sérfræðingar á vegum verkfræðistofunnar Hnits hafa mælt slit malbiksins annað hvert ár og það var fyrst í mælingum vorið 2014 að ljóst var að komið var að endurnýjun slitlagsins,“ segir á vefsvæði Spalar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert