Þjóðin kjósi um NATO

AFP

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Að tillögunni standa allir þingmenn VG og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Samkvæmt tillögunni á atkvæðagreiðslan að fara fram eigi síðar en um mitt ár 2015.

Ögmundur vakti athygli á dögunum fyrir að boða framlagningu tillögunnar í samhengi við fréttir af væntanlegri vígvæðingu NATO. Allur þingflokkur Vinstri grænna flytur málið en Ögmundur er fyrsti flutningsmaður, að því er fram kemur í tilkynningu frá VG.

Í greinargerð með tillögunni er framlagning hennar nú rökstudd út frá breyttu eðli NATO undanfarin ár. Þar segir meðal annars:

„Áform eru nú uppi meðal leiðtoga bandalagsins um 4.000 manna herlið á vegum bandalagsins til að mæta óskilgreindri ógn frá ríkjum utan bandalagsins. Hvorki sér fyrir endann á þessari útrás bandalagsins, né átökunum sem þau standa í nú og í framtíðinni. Nauðsynlegt er að staldra við og gefa landsmönnum færi á að svara þeirri spurningu hvort þeir telji rétt að Ísland eigi aðild að slíkum hernaðaraðgerðum og ljóst að mikil þörf er á opinni og lýðræðislegri umræðu um samflot Íslands í fyrrnefndum hernaðaraðgerðum.“

Þá er bent á að í undirbúningi sé að leggja fram sérstaka Þjóðaröryggisstefnu Íslands sem ná eigi þverpólitískri samstöðu um, en hins vegar sé óhugsandi að samstaða náist um stefnu sem fæli í sér áframhaldandi þátttöku í hernaðaraðgerðum NATO:

„Í ljósi þess að utanríkisráðherra hefur lýst yfir vilja til að ná þverpólitískri samstöðu um þjóðaröryggisstefnu Íslands er rétt að visa þeim hluta tillagna nefndarinnar til þjóðarinnar sem snýr að veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu beint til þjóðarinnar og marka þess í stað stefnu um borgaraleg þjóðaröryggismál sem ætla má að náist breiðari samstaða um,“ segir í tilkynningu VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert