Grasalæknir greiði 1,5 milljón

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Eignarhaldsfélaginu Kolbrúnu grasalækni hefur verið gert að greiða fyrrverandi starfsmanni félagsins 1,5 milljónir króna og 400 þúsund krónur í málskostnað. Í málinu var deilt um vinnu á uppsagnarfresti og kemur fram í niðurstöðu dómsins að starfsmaðurinn gat ekki skilið það öðruvísi en hann þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn.

Í málinu kom fram að starfsmanninum var sagt upp 12. júní 2013 og hann krafinn um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað, allt í eigu Kolbrúnar grasalæknis. Þá fékk starfsmaðurinn smáskilaboð tveimur dögum síðar þar sem fram kom að hann fengi full laun og þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrestinn.

„Stefndi er atvinnurekandi og hefur starfsmenn í vinnu. Stefnda máttu vera ljósar skyldur sínar í tengslum við uppsagnir starfsmanna. Sú ákvörðun stefnda að krefja stefnanda um fartölvu, farsíma og lykla að vinnustað stefnda gaf stefnanda til kynna að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar í uppsagnarfresti.

Símaskilaboð sem stefndi sendi stefnanda 14. júní 2013 verða ekki skilin á annan veg en að stefnandi þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn. Með þessu komst á bindandi samkomulag á milli stefnanda og stefnda um vinnu í uppsagnarfresti,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Lögmaður Kolbrúnar grasalæknis ehf. hélt því hins vegar fram að stéttarfélagið VR hefði, í umboði starfsmannsins, boðið fram starfskrafta hans í uppsagnarfresti. Þar sem starfsmaðurinn hefði ekki komið til starfa hefði hann fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti.

Þessu mótmælti starfsmaðurinn og bar við að VR hefði ekki haft umboð til að bjóða fram vinnuframlag sitt í uppsagnarfresti. Á það féllst dómurinn og sagði starfsmanninn óbundinn af yfirlýsingum stéttarfélagsins.

Var Kolbrún grasalæknir ehf. því dæmd til að greiða starfsmanninum fyrrverandi 1.498.695 krónur, ásamt dráttarvöxtum, og 400 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert