Ráðherra var klökk á málþingi

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir mbl.is/Kristinn

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hélt fyrsta erindið á málþingi Geðhjálpar og Olnbogabarna sem stendur nú yfir á Grand hóteli undir yfirskriftinni Börn og ungmenni með tvíþættan vanda. Málþingið fjallar um hvernig heilbrigðis- og velferðaþjónusta kemur til móts við börn og ungmenni með geðrænan- og vímuefnavanda.

Eygló var klökk þegar hún steig í pontu enda var sýningu á myndbandi Guðnýjar Sigurðardóttur, aðstandanda og stofnanda Olnbogabarna, nýlokið þar sem hún talaði um reynslu sína af heilbrigðiskerfinu sem foreldri stúlku sem lést 17. september af völdum vímuefnaneyslu. 

Eygló kvaðst þakklát fyrir tækifærið til þess að leggja málefninu lið en henni var gert að svara því hvernig ungmennum upp í 25 ára aldur með geðrænan- og vímuefnavanda væri sinnt í íslensku samfélagi og hver framtíðarsýn ráðuneytisins væri í þessum málaflokki.

Eygló lagði áherslu á að þó Íslendingar ættu mikið af góðu fólki innan heilbrigðisgeirans sem vildi hjálpa þeim sem glíma við geðrænan vanda og vímuefnaneyslu, þá væri hægt að gera mun betur í þeim málum.

Talaði hún um þær stofnanir sem koma að uppeldi barna, eins og leikskóla, grunnskóla, foreldra og félagahópa og að þó þessar stofnanir veittu mörgum farsæla æsku væru alltaf einhverjir sem þyrftu á frekari aðstoð að halda. Hún taldi mikilvægt að starfsfólk þessa stofnana, auk heilbrigðiskerfisins, kæmi auga á frávik í hegðun barna og aðstæðum barna væri gefið gaum snemma svo hægt væri að kalla til sérfræðinga eins fljótt og auðið er. 

Sagði hún mikilvægt að styrkja sambandið milli barnaverndarkerfisins og heilbrigðiskerfisins og stjórnvöld þyrftu að skilgreina upp á nýtt hvað börn væru. Fólk með geðsjúkdóm væru fatlaðir einstaklingar sem læknuðust ekki þegar það náði 18 ára aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert