„Dómur Hæstaréttar rangur“

Dómur Hæstaréttar er endanlegur
Dómur Hæstaréttar er endanlegur mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Brynhildur G. Flóvenz, dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, telur að dómur sem féll í Hæstarétti í fyrra varðandi kynferðisbrot gagnvart barni, sem jafnframt var sifjaspell gagnvart barninu, sé rangur þar sem dómurinn byggi á greinargerð sem fylgdi frumvarpinu ekki ákvæði laganna sjálfra um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Þetta kom fram í máli Brynhildar í erindi sem hún flutti á Þjóðarspegli félagsvísindasviðs Háskóla Íslands í morgun og  bendir Brynhildur á að þar sem litið sé á sifjaspell sem refsiverða háttsemi þá eigi ekki að undanskilja börn þar.

Brynhildur segir að þetta sé kannski einhver nördaháttur lögfræðinnar en það er einu sinni þannig að það sé mikilvægt að það sé skýrt hvort eitthvað er refsivert eða ekki.

„Samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag, það er að sifjaspell sé refsivert athæfi þá á ekki að undanskilja börn frá því líkt og dómarar hafa nú gert,“ sagði Brynhildur í erindi sínu.

Með lögum nr. 37/2013 voru gerðar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að breytingunum sé m.a. ætlað að jafna þann mun sem sé á refsihámarki kynferðisbrota gegn börnum eftir því hvort um sé að ræða brot innan eða utan fjölskyldusambands eða annars trúnaðarsambands en í frumvarpinu var gengið út frá því að refsihámark vegna brota gegn börnum í fjölskyldu og trúnaðarsambandi við geranda skv. 200. og 201. gr. alm hgl. væru lægri en vegna brota gegn börnum almennt skv. 202. gr. sömu laga. Þetta segir Brynhildur að sé rangt og bendir á að Hæstiréttur hafi þegar dæmt í máli sem þetta kemur upp og dæmir eftir því sem kemur fram í athugasemdunum ekki lögunum sjálfum.

Óskiljanleg og röng niðurstaða

„Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, að mínu viti, ákveður Hæstiréttur, og vísar í breytingu á lögunum, og dæmir eftir almenna ákvæði laganna. Þar sem þetta er Hæstiréttur þá er þetta niðurstaðan, hvað svo sem manni finnst um hana. En í mínum huga er þetta einfaldlega rangt, röng niðurstaða,“ segir Brynhildur.

Erindi Brynhildar nefndist „Framför eða afturför - lög nr. 37/2013 um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga“

Refsihámarkið var ekki lægra samkvæmt fyrri ákvæðum

Brynhildur hefur rannsakað þessar breytingar á almennu hegningarlögnum og réttmæti þeirra forsendna sem koma fram í athugasemdum með frumvarpinu. Meginniðurstaða hennar er sú að umræddar lagabreytingar byggist á röngum forsendum. Refsihámark vegna brota gegn börnum í fjölskyldusambandi eða öðru trúnaðarsambandi við geranda hafi ekki verið lægra skv. ákvæðum almennra hegningarlaga fyrir lagabreytinguna þar sem um brotasamsteypu var að ræða í slíkum málum.

Hún segir að í þeim fjölmörgu umsögnum sem fylgja frumvarpinu sé hvergi að finna umræðu um að þetta veiki réttarvernd barna.

Að sögn Brynhildar varð til einhver skoðun sem felur í sér að talið var að refsingin samkvæmt lögunum hafi verið vægari ef um brot gagnvart eigin barni sé að ræða en svo hafi alls ekki verið, segir hún.

En svo fer eitthvað af stað og það gengur svo langt að jafnvel allir þessir umsagnaraðilar halda, af því að Alþingi segir það í frumvarpinu (refsiréttarnefnd sem samdi frumvarpið), að þetta sé til bóta. Að áður hafi refsingin fyrir kynferðisbrot gagnvart barni verið vægari þó svo að það sé ekki rétt. Hún segist ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna þessi misskilningur varð til aðra en þá að þetta hafi verið orðið að mýtu sem allir trúðu.

Samkvæmt almennu hegningarlögunum var því þannig farið að ef um kynferðisbrot gagnvart afkomanda á barnsaldri var að ræða  þá var um brot gegn tveimur ákvæðum laganna að ræða, það er sifjaspell og kynferðisbrot gegn barni.

Um tvö aðskilin brot var að ræða segir Brynhildur og tók sem dæmi að ef maður hafði samræði við dóttur sína yngri en 15 ára þá var hann dæmdur fyrir brot á tveimur ákvæðum laga.

Eftir breytinguna er ljóst að brot á eigin barni, yngri en 15 ára, er áfram brot á þessu sérstaka sifjaspellsákvæði þó svo annað standi í greinargerðinni.

Eitthvað gripið á lofti og skellt fram

Hins vegar, þrátt fyrir þetta skýra ákvæði, er núna komin Hæstaréttadómur þar sem sem ákært var bæði fyrir sifjaspell og brot gegn barni innan 15 ára eins og alltaf hafði verið gert í samræmi við lögin. Hins vegar telur Hæstiréttur að þar sem lögunum hafi verið breytt þá leggur hæstiréttur til grundvallar að það eigi ekki að refsa fyrir þessa 1. mgr. 200 gr. lagana um sifjaspell heldur eingöngu almenna ákvæðinu. Auk sérstakrar refsiþyngingarástæðu, sagði Brynhildur í erindi sínu.

„Það má spyrja sig - skiptir þetta einhverju máli? Já ég tel að þetta skipti miklu máli. Í fyrsta lagi þegar  er verið að setja lög og þá ekki síst á þessu sviði þá er mikilvægt að forsendurnar séu réttar. Að það gangi ekki í gegn rangar forsendur sem byggt er á,“ segir Brynhildur. 

Hún segir að það sé mjög mikilvægt að refsilöggjöf sé skýr og það sé auðvelt að beita henni. Flóknari löggjöf þýðir einfaldlega minna réttaröryggi, segir Brynhildur.

Hún segir að þetta mál beri vott um einhvers konar popúlisma. Eitthvað sé gripið á lofti og skellt fram af vanhugsuðu máli. Eftir stendur löggjöfin sem ekki er nægu skýr og forsendurnar eru einfaldlega rangar, segir Brynhildur G. Flóvenz.

Lögin og athugasemdir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert