5% atvinnuleysi í október

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands mældist atvinnuleysi 5% í október. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir árstíðasveiflum er atvinnuleysið 5,5%.

Samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 189.300 á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í október 2014, sem janfgildir 81,9% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 179.800 starfandi og 9.500 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,8% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 5%.

Samanburður mælinga í október 2013 og 2014 sýnir litlar breytingar hvort sem litið er til atvinnuþátttöku, hlutfalls starfandi fólks eða atvinnuleysis. Atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi jókst um 0,3 prósentustig en hlutfall atvinnulausra var óbreytt.

Þegar leiðrétt er fyrir árstíðasveiflum var fjöldi fólks á vinnumarkaði 191.100 í október 2014 sem jafngildir 82,7% atvinnuþátttöku, sem er 2,2 prósentustigum hærri en hún var í september en þá var þátttakan 80,4%.

Fjöldi atvinnulausra í október samkvæmt árstíðaleiðréttingu var 10.600 og fjölgaði um 1.600 manns frá því í september. Hlutfall atvinnulausra var 5,5% í október en var 4,8% í september. Fjöldi starfandi fólks í október var 180.500, eða 78,1%, sem eru 2.300 fleiri en voru starfandi í september. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu jókst, á milli mánaða, bæði hlutfall starfandi og atvinnuleysi. Hlutfall starfandi jókst um 1,5 prósentustig og atvinnuleysi um 0,5 prósentustig. Þetta þýðir að nokkuð fækkar í hópi þeirra sem standa utan vinnumarkaðar.

Leitni árstíðaleiðréttinga á vinnumarkaðstölum síðustu tólf mánaða sýnir hægfara en jákvæðar breytingar. Á tímabilinu hefur atvinnuþátttaka aukist um 0,7 prósentustig, atvinnuleysi lækkað um 0,3 stig og hlutfall starfandi aukist um 0,7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert