Zappkit „ævintýraleg vitleysa“

Af vefsíðunni Zappkit.com
Af vefsíðunni Zappkit.com Skjáskot af vefsíðunni Zappkit.com

„Ef eitthvað er ranghugmynd, þá er það þetta,“ segir Björn Geir Leifsson, skurðlæknir á Landspítalanum um tækið Zappkit sem fyrirtæki í Hafnarfirði selur við fjölda sjúkdóma og kvilla. Ranghugmyndirnar sem ætluð virkni tækisins byggi á hafi verið hraktar fyrir löngu. Erfitt sé að taka á óhefðbundnum meðferðum á borð við þessa þar sem lagagrundvöllurinn á Íslandi sé gallaður.

Sagt var frá því hér á mbl.is í morgun að fyrirtækið Allt hitt fyrir heilsuna í Hafnarfirði framleiðir og selur tækið Zappkit. Það samanstendur af snjallsímaforriti, magnara og rafskautum. Fyrirtækið heldur því fram að með því að senda bylgjur sem samsvara eigintíðni vírusa, baktería og annarra kvilla sé hægt að hafa áhrif á þá líkt og hljóðbylgjur geta splundrað kristalsglasi. Á meðal þeirra sjúkdóma sem eru nefndir í þessu samhengi eru alnæmi, krabbamein og ebóla.

Ekki hægt að halda slíku leyndu með samsæri

„Þetta er auðvitað ævintýraleg vitleysa. Hún byggir á þeirri ranghugmynd að veirur, frumur, bakteríur og allt hér í heimi eigi sér sína eigin tíðni sem sé hægt að hafa áhrif á með því að líkja eftir þeirri tíðni. Ef þú sendir sérstaka tíðni sem svarar til einhverrar veiru þá drepirðu hana,“ segir Björn Geir.

Þessar ranghugmyndir byggist á kenningum manns að nafni Royal Raymond Rife sem hafi verið löngu verið hraktar sem vitleysa. Björn Geir segir hins vegar að þegar svona ranghugmyndir fari af stað lifi þær eigin lífi og erfitt sé að drepa þær niður. Alltaf sé einhver sem taki þær upp og geri þær að sínum. 

„Þetta byggir ekki á rannsóknum heldur tómri ímyndun og staðfestingarvillu. Ef þetta væri rétt þá hefðum við enga sjúkdóma því þá væri ekkert mál að lækna þá. Það er ekkert hægt að halda svona löguðu leyndu með einhverju samsæri. Það er til fólk sem rígheldur í ranghugmyndir sem eins konar trúarbrögð og heldur því fram og heldur í raunveruleikanum að við læknarnir séum vondir menn sem vilja ekki veita fólki þessar dásemdir vegna þess að við höfum einhverra hagsmuna að gæta að koma í veg fyrir áhrifaríka meðferð,“ segir Björn Geir.

Á vefsíðu sem Allt hitt heldur úti um Zappkit er fyrirvari um að ekki sé lofað lækningu eða áhrifum á einkenni kvilla og fólki ráðlagt að leita læknis ef það sé veikt. Björn Geir segir að þetta sé augljóslega gert til þess að reyna að firra sig ábyrgð.

Lagagrundvöllurinn gallaður

Björn Geir segir að eftir að læknalög voru afnumin árið 2005 og lög um græðara sett séu ekki til nein lög sem nái yfir þykjustulækningar af þessu tagi. Um leið hafi hugtakið skottulækningar verið numið úr lögum. Landlæknir hafi í raun enga lögsögu yfir fólki sem selur óhefðbundnar meðferðir á borð við Zappkit þar sem lög um heilbrigðisstarfsfólk nái ekki yfir það.

„Í raun virðist enginn tilbúinn að reyna að taka á þessu almennilega, meðal annars vegna þess að lagagrundvöllurinn til að taka á þessum málum er gallaður. Hver á að vernda fólk gegn vitleysu? Í raun er mjög mikið frelsi til athafna af þessu tagi í dag og mjög erfitt að taka á svona fólki sem eru að stunda einhvers konar einkennilegar þykjustulækningar,“ segir hann.

Samkvæmt hegningarlögum virðist Birni Geir að sanna þurfi ásetning til að hægt sé að ákæra fyrir fjársvik í málum sem þessu. Ef beita eigi almennum hegningarlögum gegn manni sem selur öðrum manni vöru sem eigi að lækna krabbamein geti sá einfaldlega sagst ekki hafa vitað betur. Eins þurfi að vera klárt að varan sé beinlínis hættuleg til að það teljist brot á hegningarlögum að selja hana.

„Við munum aldrei koma til með að geta stoppað allar þykjustulækningar en það þarf að fara upplýsa almenning og stoppa þetta versta,“ segir Björn Geir. 

Björn Geir Leifsson, skurðlæknir.
Björn Geir Leifsson, skurðlæknir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert