Stormur með skafrenningi og blindu á vegum

Meira og minna í allan dag er útlit fyrir norðaustan hvassviðri eða storm með skafrenningi og blindu á vegum allvíða og ofanhríð að auki, einkum norðaustan- og austanlands. Dregur þó aðeins úr vindi vestantil á Norðurlandi þegar líður á daginn sem og á Vestfjörðum.

Hviður á Kjalarnesi verða allt að 30-40 m/s fram yfir hádegi og jafnvel lengur sem og á sunnanverðu Snæfellsnesi og suðaustanlands í N-átt beggja vegna Hornafjarðar, einkum þar yfir miðjan daginn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Færð og aðstæður

Það er hálka og skafrenningur  á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi. Óveður er á Kjalarnesi.

Á Vesturlandi  er víða hálka eða snjóþekja en ófært á Fróðárheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Flughálka og óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Útnesvegi.

Snjóþekja eða þæfingur er víða á Vestfjörðum en ófært er á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði og beðið með mokstur vegna veðurs. Skafrenningur er mjög víða á fjallvegum. Þungfært er í Kollafirði á Ströndum og flughálka á vegum í nágrenni Hólmavíkur.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og víða skafrenningur. Einnig er snjóþekja eða hálka á Norðurlandi eystra og snjókoma á köflum og skafrenningur.  Þungfært og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og unnið að hreinsun.

Ófært á Oddskarði og beðið með mokstur vegna veðurs.  Vatnsskarð eystra er einnig ófært en þar er verið að hreinsa.  Annars er víða snjóþekja á vegum á Austurlandi og skafrenningur á fjallvegum. Hálka er með suðausturströndinni frá Höfn og áfram suður og óveður í Öræfasveit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert