Mega snúa aftur heim

Patreksfjörður.
Patreksfjörður. © Mats Wibe Lund

Búið er að aflétta rýmingu á reit 4 á Patreksfirði. Óvissustig er ennþá í gildi fyrir sunnanverða Vestfirði. Nú er hvöss SV átt með éljaveðri um sunnan- og vestanvert landið. Það er ennþá rigning á láglendi en kólnar smám saman í dag, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Alls þurfti 41 íbúi í þrettán húsum að yfirgefa heimili sín í bænum í gær vegna snjóflóðahættu. 

Veðurstofan hefur birt skýringar á því hver munurinn á óvissustigi og hættustigi er á vef sínum. Þar kemur fram að óvissustig vegna snjóflóðahættu felur í sér aukinn viðbúnað snjóflóðavaktar Veðurstofunnar og snjóathugunarmanna ásamt samráði við lögreglu og almannavarnir í héraði vegna snjóflóðahættu sem upp kann að koma í byggð.

Óvissustig felur ekki í sér yfirvofandi snjóflóðahættu í byggðinni heldur að hætta geti skapast. Óvissustigi er lýst yfir til þess að þeir sem koma að aðgerðum, sem getur þurft að grípa til, séu viðbúnir. Óvissustigi er lýst yfir fyrir heila landshluta en ekki tiltekna staði áður en ákvarðanir eru teknar um aðgerðir svo sem rýmingu húsnæðis. Oftast er einungis um að ræða hugsanlega snjóflóðahættu á einum eða fáum stöðum á viðkomandi svæði.

Óvissustig er samræmt hugtak sem notað er af almannavörnum í viðbúnaði við náttúruvá, jafnt fyrir snjóflóð, sjávarflóð, storma og annað sem getur skapað fólki hættu eða valdið eignatjóni.

Hættustig er næsta stig viðbúnaðar. Fyrir þéttbýli felur hættustig í sér rýmingu húsnæðis á ákveðnum reitum sem skilgreindir hafa verið í rýmingaráætlun. Í dreifbýli eru oftast rýmd einstök hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert