Alvarleg mistök bílstjóra og starfsfólks

Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir þurfti að sitja í 7 klukkustundir í …
Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir þurfti að sitja í 7 klukkustundir í bíl ferðaþjónustu fatlaðra. Pétur Gunnarsson

Bílstjóri ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem skildi fatlaða stúlku eftir klukkutímum saman í bílnum hafði ekki mikla reynslu og gerðist sekur um alvarleg mistök með því að tryggja ekki að allir farþegar væru farnir úr bílnum þegar hann skilaði hópnum sem hann ók. Þetta kemur fram í skýrslu neyðarstjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Frétt mbl.is: Margt fór úrskeiðis

Lögreglan lýsti eftir Ólöfu Þorbjörgu Pétursdóttur 4. febrúar sl. Þá hafði hún ekki skilað sér í Hitt húsið þangað sem hún hafði átt að fara með bíl ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Í ljós kom að bílstjóri bifreiðarinnar hafði gleymt stúlkunni í margar klukkustundir í henni. Fannst Ólöf Þorbjörg í bílnum kl. 19:40 um kvöldið eftir að hún hafði verið sótt um hádegisbilið.

Neyðarstjórn sem sett var yfir ferðaþjónustu fatlaðs fólks eftir þetta og fleiri mál þar sem misbrestur varð á þjónustunni skilaði skýrslu um þjónustuna í dag en þar er sérkafli um mál Ólafar Þorbjargar.

Þar kemur fram að bílstjórinn hafi ekki haft mikla reynslu af akstri með fatlað fólk. Hann gætti ekki að því að tryggja að allir farþegar væru farnir úr bílnum þegar hann skilaði hópnum í Hitt húsið. Það telur stjórnin hafa verið alvarleg mistök. Þá gætti hann ekki að því að skoða bílinn með fullnægjandi hætti að loknum akstri í samræmi við gildandi verklag. Á þessu hafi síðan verið hnykkt sérstaklega í handbók fyrir bílstjóra.

Alvarleg mistök, trúnaðarbrot og óvarkárni

Þá voru alvarleg mistök gerð í Hinu húsinu þegar lá fyrir að stúlkan skilaði sér ekki þangað. Þar sé í gildi skýrt verklag en því hafi ekki verið fylgt. Ástæðan var sú að nýir starfsmenn voru við störf og reyndir stjórnendur fjarri vegna starfsdags. Fræðslu um verklagið og rétt viðbrögð nýrra starfsmanna hafi verið ábótavant.

Neyðarstjórnin gagnrýnir einnig opinber ummæli forsvarsmanns akstursaðilans þegar málið komst í hámæli. Hann hafi ekki gætt að trúnaðarskyldu í yfirlýsingum og samtölum við fjölmiðla. Þá hafi Strætó ekki gætt þess að sannreyna fullyrðingar um stöðu mála áður en þær voru bornar á borð opinberlega. Trúnaðarbrot og óvarkárni í yfirlýsingum telst að mati neyðarstjórnarinnar alvarlegt frávik.

Í skýrslunni kemur fram að atvikið hafi leitt til margvíslegra úrbóta hjá Strætó, akstursaðilum og Hinu húsinu. Verklag og samvinna Hins hússins og akstursaðila hafi verið sérstaklega yfirfarin til að tryggja öryggi þjónustunnar. Sett hafi verið upp sérstakt verklag hjá Strætó um viðbrögð ef farþegi týnist.

Fyrri frétt mbl.is: Þurfa að skipuleggja upp á nýtt

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega …
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega að láta hana virka rétt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert