Dómurum verði fjölgað í tíu

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Lagt er til í stjórnarfrumvarpi innanríkisráðherra að dómurum í Hæstarétti Íslands verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu frá og með 1. september nk. til að bregðast við miklu álagi á réttinum. Gert er ráð fyrir að heimildin falli niður 31. desember 2016. Fram kemur í skýringum að ekki verði skipað í embætti dómara sem losnar eftir þann tíma nema nauðsynlegt sé til að dómarar verði níu talsins.

„Málum sem eiga upphaf sitt í hruni fjármálakerfisins og afleiðingum þess er enn ekki lokið,“ segir í greinargerð. Bent er á að á síðasta ári hafi nýjum málum fjölgað frá árinu 2013. Ef tekið sé mið af meðaltali fjölda mála á árunum 2008-2013 hafi málum á síðasta ári fjölgað um 111 mál eða 13%. Kærum í einkamálum hafi fjölgað verulega, um 96 mál, eða 33% miðað við sama mælikvarða. „Þannig hafa spár um að draga mundi úr málafjölda í Hæstarétti ekki gengið eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert