Segir Ingólf „framhandlegg“ Hreiðars

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings. mbl.is/Þórður

Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, var ekkert annað en framhandleggurinn á Hreiðari Má Sigurðssyni, fv. forstjóra Kaupþings samstæðunnar. Þetta sagði Halldór Friðrik Þorsteinsson, stofnandi H.F. Verðbréfa, í samtali við fv. forstöðumanns eigin viðskipta Kaupþings í símtali sem spilað var í réttarsal í dag við aðalmeðferð stóra markaðsmisnotkunarmáls Kaupþings.

Skoðanir lituðust af tíðaranda

Í yfirheyrslu yfir ákærða, Einari Pálma Sigmundssyni, fv. forstöðumanni eigin viðskipta, hafa verið spiluð fjölmörg símtöl frá því í maí árið 2010, en þá hafði rannsóknarskýrsla Alþingis verið gefin út og yfirheyrslur átt sér stað yfir sakborningum. Einar Pálmi sagði að skoðanir hans hafi á þessum tíma litast mikið af því umhverfi sem var fyrir hendi, en meðal annars hafi yfirheyrslur sérstaks saksóknara verið nokkuð afdráttalausar um gjörðir yfirmanna bankanna.

Sími Einars var hleraður og var hann í nokkur skipti í sambandi við Halldór Friðrik um málið. Segir Einar í einu símtalinu að öll viðskiptin á kauphliðinni með bréf Kaupþings hafi verið að undirlagi Ingólfs og aldrei neins annars. Tekur hann fram að hann hafi einhvertímann rætt við Hreiðar Má, en að hann hafi ekkert komið nálægt þessum hlutabréfakaupum.

Yfirstjórnin sú eina sem sá allt málið

Í öðrum símtölum er rætt um hina hlið málsins, söluhliðina, sem meðal annars var dæmt um nýlega í svokölluðu Al Thani máli. Halldór er nokkuð harðorður þróun mála hér á landi og segir að ef einhverjir hafi haft yfirsýn yfir málið í heild og verið að plotta eitthvað, þá hafi það verið yfirmennirnir Hreiðar Már, Sigurður Einarsson eða Magnús Guðmundsson. Tekur hann reyndar einnig fram að starfstöð bankans í London hafi eitthvað haft með það að gera að finna kaupendur að bréfum bankans sem bankinn lánaði svo að fullu fyrir.

Einar er þessu sammála og segir einnig að það hafi verið yfirstjórn bankans sem hafi ákveðið öll kaup á bréfum Kaupþings á kauphliðinni. „Það sem ég náttúrulega segi og eins og er bara satt að það var bara yfirstjórn sem að ákvað þessi kaup,“ segir Einar, en hann tekur ekki fram hverjir í yfirstjórninni, aðrir en Ingólfur, hafi komið að ákvarðanatökunni.

Ingólfur ekkert annað en framhandleggurinn af Hreiðari

Halldór Friðrik segir í öðru símtali að hann hafi aldrei fundið neina lykt af því að eigin viðskipti Kaupþings hafi verið að „fiffa“ með verð í Kaupþingi og segist hann tilbúinn að vitna til um það. Kallar hann Ingólf framlengingu á forstjóra samstæðunnar og má ljóst þykja að hann telji að ekkert hafi verið gert nema með ákvörðun Hreiðars Más. „Ingólfur Helgason er ekkert annað en framhandleggurinn af Hreiðari Má Sigurðssyni,“ segir Halldór í símtalinu.

Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert