Verða líklega þreyttir í fótunum

Guðni Páll, Örvar og Þorbergur Ingi.
Guðni Páll, Örvar og Þorbergur Ingi.

Þorbergur Ingi Jónsson, Örvar Steingrímsson og Guðni Páll Pálsson eru fyrstir Íslendinga til þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupi sem fer fram í Frakklandi í dag. Vegalengdin er 85 kílómetrar og hækkunin er 5.300 metrar.

„Ég er búinn að taka fullt af löngum æfingum, 3-4 tíma löngum upp og niður með mikilli hækkun. Það er náttúrulega mjög mikil hækkun í hlaupinu og þá skiptir miklu máli að undirbúa sig vel hvað brekkur varðar,“ segir Þorbergur í samtali við mbl.is daginn fyrir hlaupið.

Hann segist gera ráð fyrir því að það taki hann um níu eða tíu tíma að klára hlaupið. „Ég hef ekki áður hlaupið svona lengi í einu. Ég er pínu stressaður enda get ég trúað því að þetta verði erfitt.“

Aðspurður hvort hann sjái ekki fram á að vera þreyttur eftir að hlaupa í kannski tíu tíma svarar Þorbergur því játandi. „Ég geri ráð fyrir því að vera sérstaklega þreyttur í fótunum. Það er mikið álag á lappirnar að hlaupa upp og niður í svona bratta.“

Íslendingarnir þrír hafa verið að reyna að líkja eftir brautinni sem verður hlaupin í dag á æfingum. Þeir hafa verið að æfa sig í brekkum og fjöllum, sérstaklega að hlaupa niður. „Við erum líka að hugsa út í tíma á löppunum, ekkert endilega hversu langt maður fer heldur bara hversu lengi við erum í einhverju fjallabrölti. Þetta er ekki spretthlaup alla leið heldur erum við að klifra bröttustu kaflana,“ segir Þorbergur. „Við þurfum líka að venja okkur á það að taka inn orku á leiðinni.“

Hann segir að það verði þrjár drykkjastöðvar á leiðinni. Þar er hægt að sækja mat eða annað. „En við keyrum mest á orkugelum sem er í rauninni bara sykraðar kaloríur með salti og steinefnum í gelformi.“

En hvað gerir maður eftir svona langt hlaup?

„Það verður einhver lokaathöfn en maður þarf bara að byrja að jafna sig strax, hugsa um lappirnar, slaka á og hafa gaman,“ segir Þorbergur. „Það er alveg rosalega fallegt hérna en við fljúgum heim daginn eftir hlaupið, mjög snemma.“

Hlaupið hófst klukkan 3:30 að nóttu til eða klukkan 1:30 á íslenskum tíma. „Við erum að vakna upp úr miðnætti til þess að fá okkur borða. Það verður náttúrulega mjög lítið sofið,“ segir Þorbergur. „Við vitum ekki alveg hvernig við komum út úr þessu svefnlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert