Mikill snjór á Laugaveginum

Myndin var tekin við Landmannalaugar fyrir skömmu.
Myndin var tekin við Landmannalaugar fyrir skömmu. mbl.is/RAX

Ein og hálf vika er síðan gönguleiðin um Laugaveginn var opnuð á hálendinu, en enn er mikill snjór á svæðinu. Elíza Lífdís Óskarsdóttir, skálavörður í Landmannalaugum, segir um þrjátíu göngumenn hefja göngu þar á dag en færri séu á ferðinni en síðustu ár sökum lélegra skilyrða.

„Það er ennþá mjög mikill snjór á Laugaveginum. Í gegnum hraunið héðan og upp í Hrafntinnusker sem er byrjunin á leiðinni er þetta í lagi en þegar kemur um miðjan veg upp í sker og allt niður í Álftavatn er mikill snjór og blautt,“ segir hún. 

Elíza segir snjó ekki hafa verið meiri á svæðinu í 10-15 ár. „Þetta er óeðlilegt miðað við síðustu ár, en fyrir 10-15 árum var þetta alltaf svona hérna,“ segir hún og bætir við að snjóað hafi á Fimmvörðuhálsi á laugardag. 

Vara göngufólk við því að fara af stað

Þá hafa veðurskilyrði ekki verið góð, en að sögn Elízu hafa skálaverðir varað göngufólk við því að fara af stað. „Við höfum verið að benda fólki á að það er mjög mikil þoka á svæðinu. Í gær var til dæmis tuttugu metra skyggni uppi í Hrafntinnuskeri. Svo er fullt af stikum á kafi í snjó og leiðin er ekki greinileg,“ segir hún. „Þetta er ekki fyrir fólk nema þá sem eru mjög vanir vetraraðstæðum og með gps-tæki.“

Elíza segir marga göngumenn þó vilja nýta frí sín í göngurnar, og einnig sé mikið um erlenda ferðamenn sem vilja ekki sleppa göngunni þrátt fyrir viðvaranir. „Við reynum að hafa vit fyrir fólki en það stoppa auðvitað ekki allir í skálanum hjá okkur svo við náum ekki öllum. Við erum samt búin að fá nokkra til að snúa við og fá þá frekar til að fara niður í Þórsmörk,“ segir hún.

Hætta á gróðurskemmdum ef farið er af stígum

Eftirlit er með gönguleiðum á svæðinu en ekki allar gönguleiðir hafa verið opnaðar vegna snjóþungans. Á þeim leiðum sem búið er að opna er þó mælst til þess að göngufólk haldi sig á merktum leiðum að sögn Elízu. „Ef fólk er að fara út fyrir stígana er hætta á gróðurskemmdum, þá getur fólk verið að ganga á mosa eða viðkvæmu landsvæði.

Elíza segir að gönguleiðirnar séu ekki ruddar, en það hjálpi til þegar gengið sé á þeim. Þá fari skálaverðir einu sinni á dag og passi upp á að það sé vel stikað svo fólk fari réttar leiðir. 

Erfiðari aðstæður í Laugavegshlaupinu en síðustu ár

Hið árlega Laugavegshlaup fer fram þann 18. júlí nk. en þá hlaupa þátttakendur hina 55 km löngu leið á nokkrum klukkustundum. Aðspurð segir Elíza allt líta út fyrir að aðstæður verði erfiðari en síðustu ár. „Ég myndi halda að það yrði ennþá blautt í kringum Hrafntinnusker. Það verða mun meira krefjandi aðstæður í hlaupinu en síðustu ár, það er alveg klárt.

Hún segist þó gera ráð fyrir því að stígurinn þoli hlaupið, en á fjórða hundrað manns hafa tekið þátt í því síðustu ár. 

Landmannalaugar.
Landmannalaugar. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert