Ekki tengt kvikuhreyfingum

Litakóðanum fyrir flug yfir Eldey var breytt í gult þegar …
Litakóðanum fyrir flug yfir Eldey var breytt í gult þegar jarðskjálftahrinan hófst en hefur nú aftur verið breytt í grænt. Veðurstofa Íslands

Engin mælanleg merki er um að jarðskjálftavirkni sem verið hefur á Reykjaneshrygg sé tengd kvikuhreyfingum í efri hluta jarðskorpunnar. Veðurstofa Íslands hefur því ákveðið að breyta litakóða vegna flugs fyrir eldstöðina Eldey úr gulu í grænt.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er skjálftahrinan sem hófst að kvöldi 30. júní að mestu lokið og því hafi verið ákveðið að breyta viðvörunarstiginu. Greining á sýnum sem tekin voru úr sjó þann 1. júlí sýni heldur engin frávik sem benda til þess að kvika hafi komist í snertingu við vatn.

Skjálftahrinur eru mjög algengar á þessum slóðum, en þó segir Veðurstofan stærð skjálfta og fjölda þeirra í hærri kantinum í þessari hrinu. Svæðið verði vaktað náið á næstunni en búast megi við eftirskjálftavirkni á næstu dögum og vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert