Umferðin tekin að aukast

Umferð í Reykjavík.
Umferð í Reykjavík. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Fyrsta helgin í júlí þýðir bara eitt, að ein mesta ferðahelgi ársins er að ganga í garð. Margir hafa undirbúið ferðalög út á land og er umferðin út úr bænum nú hægt og rólega að aukast í samræmi við það.

Umferðin um Vesturlandsveg sem liggur um Kjalarnesið hefur nú aukist eftir því sem hefur liðið á daginn. Um klukkan 13 óku 154 bílar um veginn á hverjum 10 mínútum. Hefur sá fjöldi nú aukist upp í nær 222 og er búist við enn meiri umferð um leið og fólk lýkur vinnu. Um Suðurlandsveg sem liggur framhjá Sandskeiði óku 142 bílar á hverjum 10 mínútum klukkan 13 í dag en eru þeir nú orðnir 195. 

Vegagerðin hefur á heimasíðu vakið athygli á því að unnið er að framkvæmdum á Hellisheiðinni fyrir ofan Hamragilsveg. Á kafla hefur því hámarkshraðinn verið lækkaður niður í 50 km/klst. og gæti það tafið umferðina frekar. 

Góð veðurspá er fyrir morgundaginn. Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að það verði í raun fínt veður um land allt, og að hitinn geti farið upp í 20 stig þar sem sólin fær að skína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert