Hvernig verður helgarveðrið?

Spáð er ágætu veðri í Vestmannaeyjum um helgina en á …
Spáð er ágætu veðri í Vestmannaeyjum um helgina en á morgun, fimmtudag, verður svolítið hvasst. mbl.is/Guðmundur Sveinn Hermannsson

Það eru ekkert sérstaklega hreinar línur og enn einhver óvissa í spánni,“ segir Teitur Arason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sem fer yfir veðurspánna fyrir verslunarmannahelgina fyrir mbl.is.

Þurrt um helgina í Vestmannaeyjum

„Það verður strekkingsvindur í Vestmannaeyjum á morgun, fimmtudag. Sennilega rignir eitthvað. Svo er gert ráð fyrir að veðurkerfið sem veldur þessu fjarlægist á föstudaginn og þá fer að lægja og stytta upp. Það gæti gerst svona eftir hádegi á föstudaginn. Þá verða Vestmannaeyingar í góðum málum.

Veðrið verður svo strax betra á föstudaginn og fram eftir helgi. „Það er spáð blíðu veðri og þurru á laugardaginn. Svo ætti veðrið að vera þokkalegt á sunnudaginn, þurrt og enginn vindur til trafala.“

„Svo er óvissa með það hvernig mánudagurinn spilast. Það er djúp lægð suður af landinu en óvíst hvernig hún spilast. En eins og spáin er núna þá gæti farið að bæta í vindinn síðdegis á mánudaginn.“

Sólríkt í höfuðborginni

„Það er spáð austan golukalda á morgun líkt og verið hefur undanfarna daga með eftirmiðdagsskúrum. Svo á föstudaginn verður bara þurrt og sólríkt í höfuðborginni og það á einnig við um laugardaginn.“

„Síðan er á sunnudaginn áfram spáð fínasta veðri á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið er því að sleppa vel um helgina líkt og raunar í allt sumar þótt sumarið heilt yfir á landinu hafi verið erfitt.“

Blautur mýrarbolti á laugardaginn

Á Ísafirði fer fram evrópumeistaramótið í mýrarbolta um helgina og eflaust margir spenntir að sjá hvernig veðurspáin verður fyrir bardagana í mýrunum á Vestfjörðum. 

„Á föstudaginn verður norðaustan kaldi og sennilega verður skýjað en þurrt. Ef það verður skýjað mun hitinn varla ná 10 stigum, heldur rétt undir. Svo er líklegt að á laugardeginum muni rigna aðeins. Þá finnur fólk fyrir norðanáttinni, um 10 metrar á sekúndu.“

„Þá blotna þeir svolítið í Mýrarboltanum. Svo eimir eitthvað eftir af þessari rigningu framan af á sunnudeginum en svo rofar til seinni part sunnudags. Þá ætti sólin að fara að skína og gerir það áfram á mánudeginum,“ segir Teitur.

Svipað veður á öllu Norðulandinu

Á Akureyri fer hátíðin Ein með öllu fram um helgina. Er spáð svipuðu veðri þar og á Vestfjörðum. 

„Á föstudaginn verður hæg norðangola og skýjað en þurrt. Þegar er svona skýjað nær hitinn sér ekki á strik, hann verður sennilega rétt undir 10 stigunum.“

„Á laugardeginum kemur þangað sama úrkomukerfi og á Ísafirði. Þá kemur rigning norðan frá. Það er örlítið óvíst hversu víðtækt rigningakerfið verður á Norðurlandi um helgina en fólk á Akureyri verður að vera viðbúið rigningu þar. Eins og á Ísafirði þá rofar til á Akureyri á sunnudag og þá ætti að vera fínasta veður. Það helst svo fram á mánudag.“

Á Siglufirði halda menn upp á Síldarævintýrið um helgina. Verður veðurspáin að sögn Teits mjög svipað og á Akureyri.

Það er spáð skýjuðu á föstudaginn, vætu á laugardaginn og svo rofar til á sunnudaginn.“

Á Neskaupsstað fer hátíðin Neistaflug fram um helgina. Þar, eins og annars staðar á Austfjörðum er spáð nokkuð þurru veðri.

„Föstudagurinn ætti að verða þokkalegur á Austfjörðum. Þurr og hitinn í kringum 10 stigin.“

„Svo á laugardaginn ættu Austfirðirnir að sleppa við úrkomukerfið fyrir norðan. Það ætti því að vera þurrt á Austfjörðum á laugardaginn og á sunnudag. Ekki er úrkoma beinlínir í kortunum.  Hægur vindur verður alla dagana og ekki úrkoma en það er spurning hvort sólin nái í gegn. Það gætu orðið einhverjir sólarkaflar.“

Sjá veðurvef mbl.is

Spáð er vætu á Ísafirði á laugardaginn en skárra veðri …
Spáð er vætu á Ísafirði á laugardaginn en skárra veðri seinni part sunnudags. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Spáð er fínu veðri í höfuðborginni um helgina.
Spáð er fínu veðri í höfuðborginni um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert