„Öll mál eru mismunandi“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Það hefur engin breyting verið á verklagsreglunum hjá okkur varðandi tilkynningu til fjölmiðla um kynferðisbrot,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir það koma til greina að endurskoða hvernig upplýsingum sé miðlað til fjölmiðla, sé óskað eftir því.

Sjá frétt mbl.is: Munu ekki upplýsa um kynferðisbrot

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendir á fjölmiðla tilkynningar í tölvupósti þrisvar á sólarhring. Á meðal þeirra mála sem greint er frá þar eru líkamsárásir, umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og fleira. Ekki er hins vegar greint frá kynferðisbrotum í þessum póstum. 

„Í þeim póstum eru helstu málin sem lögreglan þarf að taka á en í þeim eru ekki upplýsingar um stærri mál líkt og manndráp og kynferðisbrotamál. Við erum ekki að eigin frumkvæði að gefa upplýsingar um kynferðisbrotamál enda hefur ekki verið eftir því leitað. Í þau skipti þegar við erum spurð hversu mörg kynferðisbrotamál lögreglan hefur fengið inn á sitt borð, þá höfum við svarað því,“ segir Alda og bætir við að póstarnir séu sendir út af varðstjórum á lögreglustöðum í borginni. 

„Þeir sem senda þetta út eru varðstjórar á vaktinni, lögreglumenn sem sinna löggæslu úti á götu. Við erum almennt með sérhæft fólk sem vinnur að kynferðisbrotamálum en það eru aðrar deildir og annað fólk. Almennir varðstjórar eru síðan ekki endilega með aðgang að upplýsingum um kynferðisbrotamál í málaskrá lögreglunnar. Sum mál þar eru læst.“

Þá segir hún stærð embættisins einnig hafa áhrif. „Kynferðisbrotamál upplýsast ekki á einum sólarhring. Þegar slík mál koma inn á borð til okkar eru þau stundum ekki þess eðlis að við getum tilkynnt fjölmiðlum um þau strax. Og jafnvel þótt við vildum þá væri of tímafrekt að greina fjölmiðlum frá öllum þeim kærum sem koma inn á borð til okkar, bæði vegna kynferðisbrota og annarra brota, við erum það stórt embætti. Það er svo allt annars eðlis ef fjölmiðlar spyrja hvort upp hafi komið kynferðisbrot á ákveðnum tíma, þá svörum við því og við sendum fjölmiðlum mánaðarlega skýrslur þar sem fram koma allar tölulegar upplýsingar um kynferðisbrot,“ segir Alda. 

Almannahagsmunirnir mismiklir

Alda segir almannahagsmunina vera mismikla eftir málum. „Þegar til dæmis hnífsstunga á sér stað á almannafæri, þá er hún á vitorði margra og við veitum að sjálfsögðu upplýsingar um það. Við höfum líka tilkynnt um heimilisofbeldi til fjölmiðla. En oft tengjast grófar líkamsárásir slíkum málum, árásir sem eru ekki á allra vitorði. Hvaða hagsmunum þjónar það þá að greint sé frá því í fjölmiðlum í rauntíma? Það kann oft að vera slæm hugmynd því þetta eru mjög viðkvæm mál,“ segir Alda.

Hún nefnir önnur dæmi um kynferðisbrotamál sem er vandkvæðum bundið að greina frá opinberlega. „Blaðamannafélagið talar um almannahagsmuni sem eigi við til dæmis á stórhátíðum. Hið sama á ekki endilega við dags daglega. Kynferðisbrot eru margs konar, til dæmis líka sifjaspell. Það er væntanlega ekki fjölmiðlaefni heldur mjög viðkvæm mál. Þetta er bara umræða sem við verðum að taka. Við erum fyrst og fremst að vinna að því að upplýsa málið og þurfum að taka tillit til hagsmuna aðila, sérstaklega þolenda, það er því ekki hægt að draga eina línu og segja af eða á hvort við eigum að tilkynna um öll mál eða ekki. Öll mál eru mismunandi.“

Sjá frétt mbl.is: Furða sig á málflutningi lögreglustjóra

Til greina komi þó að endurskoða þetta. „Það verður að meta í hvert skipti hvort mál eigi erindi til almennings og á hvaða stigi upplýsingar eru veittar. Við erum tilbúin til að skoða allar góðar tillögur sem koma frá fjölmiðlum, við verðum að þora að skoða það. Hingað til hefur þó ekki verið leitað eftir því. Þöggun hinsvegar, það líðum við ekki,“ segir Alda.

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert