Hringbraut heppilegasta staðsetningin

Páll Matthíasson, forstjóri LSH.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í nýjum pistli að heppilegasta staðsetningin fyrir nýjan Landspítala er Hringbraut. Hann segir jafnframt að ekki verði unnt að ráðast í endurnýjun alls húsnæðis spítalans, en hvorki verður ný geðdeild eða fæðingadeild í nýja spítalanum. Grensásdeild verður heldur ekki endurnýjuð. 

Á þessu ári er tæpur milljarður áætlaður til verkframkvæmda við sjúkrahótel og til fullnaðarhönnunar meðferðarkjarnans.

„Við endurtekna rýni hefur niðurstaðan ávallt verið sú sama - Hringbraut er heppilegasta staðsetningin. Ræður þar miklu kostnaðarþátturinn en dýrast og raunar áhættusamast er að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni. Byggingarmagnið er einnig umtalsvert minna þar sem unnt er að nýta 56.000 fm eldri bygginga við Hringbraut, nálægðin við þekkingarsamfélagið í Vatnsmýrinni skiptir miklu fyrir háskólasjúkrahús og svo mætti áfram telja,“ skrifar Páll í forstjórapistli sem birtist á vefsíðu spítalans í dag.

Ekki hægt að ráðast í endurnýjun alls húsnæðisins

Í pistlinum segir Páll að framkvæmd nýs Landspítala sé bæði umfangsmikil og kostnaðarsöm.
 
„Aðstæður í samfélaginu ráða því að ekki verður unnt að ráðast í endurnýjun alls þess húsnæðis sem þó væri óskandi. Má þar nefna húsnæði geðsviðs, fæðingardeild og Grensás. Eftir vandlega skoðun á sínum tíma var það niðurstaðan að í algerum forgangi væri að sameina bráðastarfsemi spítalans í nýjum meðferðarkjarna við Hringbraut,“ skrifar Páll.

Í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum gagnrýndi fæðingalæknirinn Ebba Margrét Magnúsdóttir það harðlega að engin ný fæðingardeild yrði í nýja sjúkrahúsinu. Sagði hún til dæmis að húsið sem fæðingadeildin væri nú til húsa hentaði ekki fæðingaþjónustu nútímans.  Þar að auki sagði Hildur Harðardóttir, yfirlæknir meðgöngu-, fæðingar- og fósturgreinadeilda í samtali við RÚV það bagalegt að fæðingadeildin væri í annarri byggingu en önnur þjónusta.

Sameining bráðastarfseminnar meiri háttar öryggismál

Í pistlinum í dag skrifar Páll að sameining bráðastarfseminnar sé meiri háttar öryggismál fyrir alla landsmenn, sama hvaða þjónustu þeir kunna að þarfnast á Landspítala og má ekki bíða. „Samhliða uppbyggingu meðferðar- og rannsóknarkjarna auk húss heilbrigðisvísindasviðs er það mikilvægt verkefni að tryggja viðunandi húsakost fyrir þá mikilvægu þjónustu sem ekki er gert ráð fyrir í meðferðarkjarnanum. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra sem ekki þarf að tefja önnur áform.“

Í pistlinum kemur jafnframt fram að á næstu vikum og mánuðum fari fram lokahönnun meðferðarkjarnans og rýni á fyrirliggjandi forhönnun.

„Að því verki koma hundruð starfsfólks Landspítala sem best þekkir starfsemina og þarfir hennar. Nýlega var endurskipað í fjölda rýnihópa og var þá sérstök áhersla lögð á að kalla til yngra starfsfólk með yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni.“ Þá verður notuð svokölluð „Lean“ aðferðarfræði sem mun skila betri og markvissari nýtingu húsnæðis að sögn Páls.

„Þetta er spennandi og skemmtilegt verkefni og einstakt tækifæri til að hanna húsakost í kringum besta verklag og þjónustu - í stað þess að við starfsfólkið þurfum sífellt að laga okkur að afgömlum bútasaumi misgamalla húsa. Það er nokkuð ljóst að það verður ekki oft á starfsævinni sem unnt er að hafa svo mikil áhrif á þróun starfsumhverfis, sem móta mun þjónustuna langt inn í framtíðina.“

Pistil Páls í heild sinni má sjá hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert