Tannlæknar tilkynna meinta vanrækslu

Raunveruleikinn er orðinn alvarlegur þegar komið er á tannlæknastofuna og …
Raunveruleikinn er orðinn alvarlegur þegar komið er á tannlæknastofuna og skemmdirnar blasa við. mbl.is/Sverrir

Barnaverndarnefndum hér á landi berast af og til tilkynningar vegna gruns um að tannheilsa barna sé vanrækt. Komi barn með mjög skemmdar tennur til tannlæknis og þar af leiðandi illa haldið af verkjum og skilar sér ekki í tíma sem bókaður hefur verið vegna viðgerða ber tannlæknum að tilkynna um meinta vanrækslu til barnaverndar.

Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir slæma tannheilsu barna falinn vanda. Sumir foreldrar átti sig ekki á alvarleika málsins fyrr en komið er á tannlæknastofuna. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir ekki um hreina vanrækslu að ræða í öllum tilvikum heldur spili fátækt foreldra stundum inn í.

Börn illa haldin af verkjum

Líkt og kom fram á mbl.is í síðustu viku eru um fjögur hundruð börn svæfð hér á landi á ári hverju aðgerða sem þarf að gera vegna tannskemmda. Haft var eftir barnatannlækni að hægt væri að losna við stóran hluta þessara aðgerða með réttri tannhirðu, matarræði og flúornotkun. Oft væri um sinnuleysi og vanþekkingu af hálfu foreldra að ræða og þörf væri á aukinni fræðslu og þekkingu til almennings.

Frétt mbl.is: 400 börn svæfð á ári vegna tannskemmda

Hólmfríður segir slæma tannheilsu barna falinn vanda. „Svona ástand, mjög mikið skemmdar tennur hjá barni sem er illa haldið af verkjum er tilkynningarskylt. Þetta er falinn vandi og þeir sem hafa oftast þurft að tilkynna vanrækslu vegna tannhirðu eru starfsmenn í leikskólum,“ segir hún.

„Það er eins og sumir foreldrar átta sig ekki á alvarleika málsins fyrr en á svæfingarstofunni, eins og kemur fram í þáttunum [innskot blaðamanns – Junk Food Kinds]. Þá er raunveruleikinn orðinn ansi alvarlegur,“ segir Hólmfríður og vísar þar með í sjónvarpsþætti sem meðal annars hafa verið sýndir á Stöð 2 en þeir varpa ljósi á offitu barna í Bretlandi og fylgikvilla hennar. Þar kemur meðal fram að nokkuð algengt sé að börn þar í landi fari í flóknar tannaðgerðir þar sem barnatennur eru dregnar úr því.

Stundum einfaldlega fátækt, stundum hrein vanræksla

Upplýsingar um tilkynningar sem berast til barnaverndarnefnda frá heilbrigðisstarfsfólki eru ekki sundurliðaðar og því eru ekki til upplýsingar um fjölda tilkynninga frá tannlæknum vegna gruns um vanræslu.

„Ég segi ekki að þetta sé stór fjöldi af málum en það er alltaf af og til sem tilkynningar berast hjá tannlæknum og við höfum átt gríðarlega gott samstarf við Tannlæknafélag Íslands varðandi fræðslumálefni sem lúta að þessu,“ segir Bragi.

Hann telur tannlækna hér á landi mjög meðvitaða  um skyldu sína. Ekki sé þó um vanrækslu að ræða í öllum tilvikum, heldur einfaldlega fátækt og þá sé mikilvægt að leita eftir fjárstuðningi hjá félagsþjónustunni þegar svo á við. Oft sé þó um að ræða hreina vanrækslu. „Slík tilvik eru ansi mörg,“ segir Bragi.

Þurfa að koma skilaboðunum til foreldra

Hólmfríður segir að þegar sé mikið til af fræðsluefni, bæði á vefsíðum Embættis landslæknis og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, aðspurð um hvort þörf sé á fræðsluátaki vegna tannhirðu barna. „Eitt er að efnið sé til, svo er hvernig maður kemur því áfram til foreldranna,“ segir hún.

Tannvernd er sinnt í ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar og í grunnskólunum í gegnum skólaheilsugæsluna. Í nokkrum leikskólum í Breiðholti eru tennur barnanna burstaðar eftir hádegismatinn

„Þetta verkefni er að skila mjög góðum árangri hvað varðar tannhirðuna. Tannhirða barna er betri ef við hjálpumst að og þegar það er meiri vakning um hvað þetta er mikilvægt. Það er jafn mikilvægt að hugsa um að tennurnar séu hreinar eins og að hreyfa okkur, borða rétt og allt það. Þetta er orðinn þáttur í daglegri rútínu barnanna,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður segir sitt viðhorf til tannheilsu helgast af því hvernig hægt sé að kenna og koma á góðum venjum varðandi tannhirðu, bæði heima og í leikskólunum. „Hugmyndin er alls ekki sú að vísa ábyrgð á tannhirðu barna til leikskólanna. Mikilvægasta tannburstunin er á kvöldin og foreldrar gegna lykilhlutverki í tannhirðu barna sinna, að lágmarki tvisvar sinnum á dag" segir Hólmfríður.

Bursta um leið og fyrsta tönnin birtist

„Við verðum að huga að þessum málum við fyrstu tönn, að við byrjum að bursta um leið og fyrsta tönnin birtist. Um leið og matur eða vökvi liggur á tönnum, sérstaklega á nóttunni því þá er minna munnvatnsflæði og tönnunum er hættara við að skemmast, um leið og við erum með vökva sem inniheldur sykur eða sýru, eru þessi börn í mikilli hættu að tennur skemmist, sérstaklega í efri góm en tungan ver oft neðri tennurnar betur,“ segir Hólmfríður.

Á vefsíðu Landlæknis segir meðal annars að aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. „Sætindi má ekki setja á snuðið því að sykruð fæða, bæði matur og drykkur, skemmir tennur barnsins. Allar barnatennurnar tuttugu hafa venjulega skilað sér fyrir þriggja ára aldur og þá er tímabært að hætta snuðnotkun,“ segir í leiðbeiningum.

Þá segir einnig að um leið og barnið fái aðra fæðu en brjóstamjólk aukist til muna líkur á tannskemmdum. Tannburstun sé jafn nauðsynleg hvort sem börn eru alin á brjóstamjólk eða þurrmjólk og bursta þarf tennurnar tvisvar sinnum á dag. Næturgjafir séu brjóstabarni mikilvægar, sérstaklega fyrstu sex mánuðina og jafnvel lengur.

„Í kjölfar tanntöku er mikilvægt að bursta tennurnar vel áður en barnið fær síðustu gjöf fyrir nóttina og svo aftur strax að morgni þar sem flest brjóstabörn sofna út frá brjóstagjöf og yngri brjóstabörn drekka nokkrum sinnum yfir nóttina. Skán sem myndast á tannyfirborði þarf að hreinsa af og þar sem munnvatnsframleiðsla er í lágmarki að nóttu til eykur það til muna hættu á tannskemmdum ef aðgát er ekki höfð varðandi tannhirðu barns,“ segir einnig á vefsíðu Landlæknis.

Upplýsingar Landlæknis vegna tannverndar

Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta …
Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Sverrir Vilhelmsson
Skemmdar tennur í munni barns.
Skemmdar tennur í munni barns. Sigurður Rúnar Sæmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert