300 þúsund króna lágmarksbætur

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samfylkingin leggur í dag fram lagafrumvarp á Alþingi um hækkun bóta elli- og örorkulífeyrisþega í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum. Rifjað er upp í fréttatilkynningu frá flokknum að við gerð síðustu kjarasamninga hafi komið fram skýr krafa um að lágmarkslaun yrðu hækkuð í þá upphæð. Samfylkingin hafi tekið undir þá kröfu og geri það nú á nýjan leik með þessum tveimur hópum. Rangt og óréttlátt sé forsvaranlegt að skilja þá eftir.

Fram kemur að í frumvarpi Samfylkingarinnar sé tekið mið af kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og stighækkun lægstu launa frá 1. maí 2015 til 1. maí 2018. „Lægstu laun voru hækkuð um samkvæmt kjarasamningum um 31.000 kr. þann 1. maí 2015 og eiga að hækka um 15.000 kr. árið 2016, eða um samtals um 46.000 kr. Boðuð hækkun lífeyris almannatrygginga samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2016 nær ekki sömu markmiðum og gerir raunar ráð fyrir helmingi lægri hækkun lífeyris almannatrygginga en lágmarkslauna, auk þess sem hækkun lágmarkslauna kemur átta mánuðum fyrr til framkvæmda.“

Framfærsluviðmið elli- og örorkulífeyris hafi verið 225.070 krónur fyrir einstakling með heimilisuppbót í byrjun árs 2015. Samkvæmt tillögu Samfylkingarinnar myndi sú upphæð þróast þannig að 1. maí 2015 væri hún 245 þúsund krónur á mánuði, 1. maí 2016 260 þúsund krónur, 1. maí 2017 280 þúsund krónur og 1. maí 2018 300 þúsund krónur á mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert