Leggja fram drög að reglugerð um dróna

Dróni. Mynd úr safni.
Dróni. Mynd úr safni. AFP

Innanríkisráðuneytið mun birta drög að reglugerð um svokallaða dróna eða flygildi á heimasíðu sinni í vikunni. Þetta kom fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn þingmannsins Katrínar Jakobsdóttir um notkun dróna sem hún lagði fram á Alþingi í dag. Katrín beindi fyrirspurn sinni að ráðherra og vildi fá að vita hvort að von væri á reglusetningu um notkun dróna hér á landi. Katrín sagði frá ýmsum hlutverkum dróna og nefndi m.a. að franskir vínbændur hafi notað dróna við eftirlit. Hinsvegar hafa drónar einnig verið notaðir gegn friðhelgi einkalífsins og nefndi Katrín til dæmis að hún hafi heyrt af því að dróni hafi verið notaður til að mynda fólk á svölum í sólbaði. „Þar gengur dróni þvert á friðhelgi einkalífsins,“ sagði Katrín. Hún kallaði eftir mikilvægi þess að reglur yrðu settar um drónanotkun hér á landi eins og gert hefur verið í Þýskalandi, Frakklandi og Svíþjóð.

Mikilvægt að ná jafnvægi

Í svari sínu benti Ólöf á að drónar geti verið notaðir í ýmsum tilgangi og nefndi í því samhengi ljósmyndum og í landbúnaði. Hún bætti þó við að spurningar hafi vaknað vegna víðtækari notkun þeirra og hefur skapast umræða um öryggi fólks á jörðu niðri og friðhelgi einkalífsins. „Það er mikilvægt að ná jafnvægi milli ávinnings af drónum og þeim hömlum sem mögulega þurfi að setja við notkun þeirra,“ sagði Ólöf í dag. Hún benti á að í lögum um loftferðir er það heimilt að settar séu sérstakar reglur um ómönnuð loftför og því þarf ekki að setja lög til að fjalla um þetta mál. Hægt sé að gefa út reglugerð um dróna án þess að setja lög.

Eins og áður hefur komið fram greindi Ólöf frá því að um þessar mundir væri að vinna að mótun reglna um notkun dróna. „Við erum komin með drög í hendurnar að reglugerð um dróna. Það þarf að horfa til þess að þetta er mál sem er að þróast mjög hratt og það þarf velta fyrir sér hversu langt skal ganga í reglum.“

Þyngdarmörkin yrðu 30 kíló

Ólöf sagðist ekki hafa sjálf hafa tekið afstöðu í þessu máli en lagði áherslu á að reglugerðin yrði lögð til kynningar á vef ráðuneytisins í vikunni. Nefndi hún að í reglugerðinni væri m.a. miðað við stærðar- og þyngdarmörk á leyfisskyldu dróna og að í reglugerðinni eins og hún líti út í dag eru þyngdarmörkin 30 kíló. Einnig er ákvæði um notkun dróna í þéttbýli og návígi við hús og önnur öryggissjónarmið.

Hún sagði mikilvægt að stilla regluþörfinni í hóf en þó þannig að reglurnar hafi mjög skýr friðhelgissjónarmið til grundvallar og öryggis líka.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert