Ull af íslenskri sauðkind í hátölurum

Snillingar Ævar og Kristján hampa hér tveimur hátölurum sem þeir …
Snillingar Ævar og Kristján hampa hér tveimur hátölurum sem þeir hafa unnið að mörg undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í nokkur ár hafa strákar á Skagaströnd þróað hátalara og telja sig nú hafa náð ásættanlegum árangri, en fullkomnunarþörf þeirra er mikil. Þeir koma nú með hátalara á markað sem eru óvenju ódýrir miðað við gæði, en það kemur til af því að fyrir tilviljun fundu þeir út algerlega nýja og einfalda hljóðstýringu. Ævar Baldvinsson er forsprakkinn og hann dreymir hljóðlausnir á nóttunni.

„Við Grétar bróðir minn höfum lengi verið hátalaranördar. Þegar ég var lítill var Grétar í hljómsveit og ég fór alltaf með honum á æfingar og setti þá hausinn inn í hátalarana og skoðaði innviðina. Þegar við urðum eldri fórum við að vinna með hljóð og við stofnuðum fyrirtækið Dimension of Sound árið 2010. Ári seinna vorum við komnir á fullt í hátalarahönnun. Við áttuðum okkur fljótt á því að við gátum ekki gert allt einir og við vorum átta þegar við vorum flestir sem komum að þessu. En núna erum við Kristján Rafn Rúdolfsson hljóðtæknir þeir einu sem eru í fullu starfi við að hanna hátalarana,“ segir Ævar Baldvinsson um það hvernig ævintýri um hönnun hátalara hófst norður á Akureyri þaðan sem þeir eru, en færðist yfir á Skagaströnd þar sem þeir búa núna.

Margar vikur í stillingu

Þeir hafa gert um áttatíu prufur af hátölurum undanfarin fjögur ár og eru nú loks nógu ánægðir með útkomuna til að setja á markað og selja.

„Það sem við höfum verið að þróa allan þennan tíma er boxið og hljóðstýringin, sem stýrir hljóðinu í keilunni. Það gerðist nánast óvart að við fundum út algerlega nýja hljóðstýringu og við skiljum varla sjálfir hvernig þetta „krossover“ virkar. Við eyðum mörgum vikum í að stilla það fyrir þessa hátalara, og þá virkar það ekki fyrir neitt annað. Það eru ekki til neinar formúlur eða neitt slíkt að þessu og fyrir vikið er þetta dálítið sérstakt, það er ekki hægt að reikna þetta út. Þess vegna þarf að eyða svona miklum tíma í að hlusta, og prófa marga íhluti. Við sjáum fyrir okkur í hausnum hvað við viljum gera, hvernig línu við viljum fá, en það er engin leið að reikna þetta út. Við byrjuðum með hefðbundna formúlu en það var dýrt og krafðist margra íhluta, til að gera það sama og þessi hræódýra og einfalda hljóðstýring okkar gerir. Þar liggur okkar sérstaða. Stundum borgar sig að taka langan tíma í að þróa hluti.“

Endalausar tilraunir

En hvað þarf að kunna og vita til að geta hannað hátalara?

„Maður þarf að vita ýmislegt um rafeindamál og rafmagnstæki. Allt um hljóð og hvernig það virkar, hvernig mismunandi hljóðtíðni bregst við þegar hún mætir annarri, hvernig ákveðin hljóðtíðni bregst við þegar hún lendir á ákveðnum fleti. Það skiptir máli þegar kemur að því að hanna boxið, þá þarf að hugsa fyrir því hvernig hljóðið endurkastast af öllum flötum. Það tekur mestan tíma að finna út úr þessu öllu og gera endalausar tilraunir til að finna bestu lausnina. Við höfum ekki efni á að kaupa mörg þúsund dollara forrit.“

Ullin er náttúruleg og ódýr

Eitt af því sem gerir nýju hátalara þeirra félaga sérstaka er að þeir nota í þá íslenska ull.

„Við viljum komast hjá því að flytja allt efni inn sem við þurfum að nota í hátalarana og við viljum nota náttúrulegt efni. Þess vegna prófuðum við að nota ullina og það hefur gefist vel. Ullin dempar hljóðið inni í hátalaraboxinu og í einni tegund hátalaranna er ullin innbyggð í hátalarakeiluna sem framkallar hljóðið. Ullin hefur svipaða eiginleika og gerviefni en hún er skemmtilegra efni og líka miklu ódýrari,“ segja þeir Ævar og Kristján og bæta við að þeir viti ekki til að í öðrum hátölurum sé ull notuð í þessum tilgangi.

Í uppsiglingu er ný lausn sem er hernaðarleyndarmál

Nýju hátalarnir eru þrennskonar, ýmist hugsaðir fyrir fólk til einkanota eða fyrir hljóðvinnslur.

„Þessir hátalarar eru mjög nákvæmir og dýrasta týpan er með innbyggðum tölvuheila, en hún er sérstaklega hönnuð fyrir hljóðvinnslur og hljóðver. Við erum að vinna í því að byrja sölu á þessum vörum úti í Bretlandi og Portúgal, en þar er mikill áhugi af því þetta er ódýrt miðað við gæði.“

Og í bígerð er fleira, Ævar er með hugmynd að þróun í hátölurum sem enn er hernaðarleyndarmál,

„Við erum að vinna í þeirri hugmynd og það kviknaði reyndar næstum í þegar ég var að prófa hana síðast. En þetta virkar, það er fyrir mestu. Þetta verður einstök vara sem mun breyta miklu,“ segir Ævar og játar fúslega að höfuð hans sé fullt af hátalarahugmyndum.

„Mig dreymir lausnir í hljóðum á nóttunni, ég vakna stundum upp og fer beint í tölvuna til að skrifa það sem mig dreymir,“ segir Ævar og gerir grín að óbilandi áhuga sínum á hljóðfræðum.

„Mér líður best þegar það er vetur og stórhríð úti og ég er inni að hanna hátalara.“

Snillingar eru á flugi

Steinar Þórisson er einn af eigendum fyritækisins Dimension of Sound og hann er tengiliðurinn í Reykjavík. Hann sér um sölumál og markaðssetningu innanlands.

„Ég var að vinna í pípulögnum á Skagaströnd í eitt og hálft ár og á sama tíma voru þeir að vinna þar í hátölurunum. Ég hafði heyrt af þeim og þar sem ég hef alla tíð hlustað mikið á tónlist og tel mig hafa sæmilegt vit á hljómi, þá vakti þetta áhuga minn. Þetta eru bráðskemmtilegir og klárir strákar og ég spjallaði við þá og var að vesenast með þeim á kvöldin í smíðinni, en það liggur mikil vinna í henni. Ég sá fljótt að þetta er gæðavara og þetta þróaðist út í það að ég varð einn af eigendum fyrirtækisins,“ segir Steinar og bætir við að erfitt sé að stoppa Ævar en hann hafi fulla trú á því sem hann sé að gera.

„Hann er með mikið af hugmyndum, eins og títt er um snillinga. Þeir eru á flugi.“

Þrjár tegundir af hátölurum

Þrjár tegundir af hátölurum eru í boði:
  • Hátalarasett með engum magnara: 59.900 kr.
  • Hátalarasett með litlum utan á liggjandi magnara: 89.900 kr.
  • Hátalarasett með innbyggðum tölvuheila, fyrir stúdíó og hljóðvinnslu: 129.900 kr.

    Hátalararnir eru til sölu, sýnis og prufu í verslun Steinars Þórissonar, Laugin, Smiðjuvegi 4, Kópavogi. Einnig hægt að hafa samband í gegnum vefsíðu þeirra: dimensionofsound.is eða á Facebook: Dimension of Sound

Hátalarastrákar - Laugin
Hátalarastrákar - Laugin Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert