Ármann gyrði sig í brók

Ármann Kr. Ólafsson.
Ármann Kr. Ólafsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Pétur Hrafn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, óskar eftir því að Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri gyrði sig í brók og skipi starfshóp um stofnun Öldungaráðs. Tæpt ár er liðið frá því að tillaga fulltrúa þriggja flokka um skipun hópsins kom fram. 

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Kópavogsbæjar. 

Í bókun Péturs Hrafns segir að tæpt ár sé liðið frá því að tillaga Samfylkingar, Framsóknarflokks og VG um skipan starfshóps um stofnun Öldungaráðs í Kópavogi kom fram.

Fimm mánuði hafi tekið að ákveða að skipa starfshópinn og var það gert í bæjarráði 22. apríl 2015. Síðan eru liðnir tæpir sex mánuðir og enn bólar ekkert á skipun starfshópsins. Óskað er eftir að bæjarstjóri gyrði sig í brók, leiti eftir tilnefningum í starfshópinn og boði til fundar hið fyrsta. 

Birkir Jón Jónsson og Ólafur Þór Gunnarsson tóku undir bókun Péturs Hrafns Sigurðssonar.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sagðist ekki ætla að bíða eftir að Pétur Hrafn yrði eldri borgari. 

„Þakka áminninguna. Vil þó taka fram að í viðræðum mínum við Félag eldri borgara hefur komið fram að engin pressa er af hálfu félagsins um stofnun Öldungaráðs. Það er þó ekki meiningin að bíða eftir því að Pétur Hrafn Sigurðsson verði eldri borgari og þar með félagi í Félagi eldri borgara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert