Talsvert mikill snjór á Litlu-Ávík

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Skapti

Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður á Litlu-Ávík í Árneshreppi á Ströndum, segir veður þar að mestu vera að ganga niður, en í dag hefur þar verið á bilinu 15 til 20 m/s og snjókoma. Hefur vindstyrkur í kviðum þar farið yfir 21 metra á sekúndu.

Að sögn hans dró verulega úr snjókomu um klukkan 18 í kvöld en hún hefur nú hins vegar tekið við sér á nýjan leik og er nú dágóð ofankoma á Litlu-Ávík. 

„Það er kominn talsvert mikill snjór en í morgun mældist snjódýptin 21 sentímetri. Svo eru auðvitað mun stærri skaflar hér og þar,“ segir Jón Guðbjörn og bætir við að nokkuð hafi dregið úr frosti í dag saman borið við þá daga sem á undan hafa komið.

„Þetta hefur verið svona við frostmarkið og niður í eina gráðu í mínus. Svo gerir spáin ráð fyrir auknu frosti á morgun,“ segir hann.

Þannig spáir Veðurstofa Íslands norðlægri átt, 3 til 10 m/s á morgun og él á víð og dreif um allt land, en austlægari og víða þurrt annað kvöld. Kólnandi veður framundan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert