Fundað um hermálið á morgun

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir mbl.is/Kristinn

Fundur fer fram í utanríkismálanefnd Alþingis í fyrramálið þar sem rætt verður um viðbúnað Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mætir á fundinn og svarar spurningum nefndarmanna um málið. Þetta staðfestir Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar í samtali við mbl.is.

Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í utanríkismálanefnd, Steinunn Þóra Árnadóttir, óskaði í morgun eftir fundi í nefndinni um málið og segir Hanna Birna að sjálfsagt hafi verið að verða við því. Fjölmiðlar greindu frá því í gær að til stæði að fara í framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli af hálfu Bandaríkjamanna og var leitt að því líkur að til stæði að auka viðveru bandarískra herflugvéla hér á landi.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði í samtali við mbl.is að ekki stæði annað til en að gera lagfæringar á aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli til þess að hægt yrði að þjónusta P-8A eftirlitsflugvélar í framtíðinni í stað P-3 Orion flugvéla líkt og gert hefði verið til þessa. Hvorki stæði til aukin viðvera bandarískra herflugvéla hér á landi né varanleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert