Varað við ferðalögum á Austurlandi

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það er slæm spá fyrir austanvert landið og varað við ferðalögum þar á vef Veðurstofu Íslands. þar er spáð suðaustan 10-18 m/s með snjókomu og skafrenningi en slyddu við suðaustur ströndina.

Fjarðarheiði ófær og Breiðamerkursandur þungfær

Á  Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, Fagradal og Vatnsskarði eystra, annars er snjóþekja og hálka víða á vegum og snjókoma. Þæfingur er á Hróarstunguvegi. Með ströndinni suðaustanlands er þæfingsfærð en þungfært er á Breiðamerkursandi.

Hálkublettir eru á Sandsskeiði og í Þrengslum en hálka og éljagangur á Hellisheiði. Hálka og hálkublettir eru á Suðurlandi. Hálkublettir og éljagangur er á Reykjanesbraut og Reykjanesi.

Hálka er á Vesturlandi og Vestfjörðum og sumstaðar snjóþekja og éljagangur.

Þæfingsfærð á Öxnadalsheiði

Það éljar eða snjóar á Norðurlandi og þar er snjóþekja eða hálka víðast hvar. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og Víkurskarði. Ófært er á Hálsum og Hófaskarði.

Í dag hvessir nokkuð duglega af suðaustri á austanverðu landinu. Með suðaustlægri áttinni berst heldur mildara loft inn yfir austanvert landið en verið hefur, og dregur þá víðast hvar úr frosti. Á láglendi suðaustan- og austanlands má búast við allt að 5 stiga hita en áfram er frost í fjallahæð. Það er talsverð úrkoma í kortunum suðaustanlands, snjókoma til fjalla en slydda á láglendi - jafnvel rigning sums staðar. Saman veit þetta á fremur leiðinlega færð, krapa og hálku. Austan og norðaustanlands er snjómugga víða og einnig má búast við stöku éljum suðvestanlands, en þar er þó mun hægari vindur. Á Vestfjörðum og Norðvesturlandi er einna helst þurrt og bjart. Á morgun kólnar aftur og helgin lítur ljómandi vel út, samkvæmt hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á föstudag:
Suðaustan 8-13 m/s og snjókoma eða slydda suðaustan og austanlands. Austan 5-10 m/s og lítilsháttar él annars staðar en bjartviðri um landið suðvestanvert. Frost 2 til 10 stig, en um frostmark suðaustantil.

Á laugardag:
Austan 8-13 m/s. Skýjað austantil og él með ströndinni en bjartviðri vestantil. Frost 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum N-lands.

Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt og víða léttskýjað, en líkur á stöku éljum við suðausturströndina. Talsvert frost um allt land.

Á mánudag:
Suðaustan 8-13 m/s og lítilsháttar snjókoma SV-til en ört vaxandi suðaustanátt með talsverðri slyddu og síðar rigningu síðdegis. Hægari og úrkomulítið NA-til. Hlýnandi veður.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir suðvestan hvassviðri með rigningu í fyrstu, en síðan slyddu og snjókomu. Áfram úrkomulítið NA-til. Kólnar í veðri.

Á miðvikudag:
Suðvestanátt og él en bjartviðri N- og A-lands. Kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert