Fann gamalt bréf til stjúpafa síns

„Sonur minn hafði fengið gamalt dót úr dánarbúinu og fann þar gestabók sem hann lét mig fá,“ segir Ósk Laufdal Þorsteinsdóttir, starfsmaður Actavis í Hafnarfirði, sem fann innan í gestabókinni handskrifað bréf til stjúpafa síns, Hrólfs Sigurjónssonar, verkamanns og glímukappa frá Ísafirði.

Bréfið er ritað þar í bæ 12. febrúar árið 1955 af móður Hrólfs, Rósu Jóhannsdóttur, en Hrólfur var þá fluttur til Reykjavíkur. Bréfið er mjög hjartnæmt og skrifað af mikilli hlýju og þakklæti í garð Hrólfs.

Móðir hans var komin á efri ár þegar bréfið var ritað en hún lést fjórum árum síðar, 1959, þá 87 ára gömul. Rósa var ættuð af Vatnsnesi í V-Húnavatnssýslu, fædd árið 1872. Hún giftist Sigurjóni Sigurðssyni, ættuðum úr Garðinum, og eignuðust þau 10 börn. Fimm þeirra komust á legg og var Hrólfur þeirra næstyngstur.

Hér til hliðar er birt brot úr upphafi bréfsins en í niðurlaginu getur Rósa þess að hún hafi sent Hrólfi vettlinga sem hann geti „brúkað í vinnu þegar kalt er“.

Biður hún fyrir kveðju til konu Hrólfs, Njálu Guðjónsdóttur, en Njála var seinni eiginkona hans. Hún átti fyrir dótturina Jóhönnu, sem er móðir Óskar Laufdal og þeirra Njálu og Helgu Laufdal Þorsteinsdætra. Hrólfur eignaðist eina dóttur með fyrri eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Halldórsdóttur, og áður átti hann tvö börn með Heiðveigu Árnadóttur.

Orti ljóð um ömmu og afa

Í bréfinu hvetur Rósa son sinn til að skrifa sér „nokkrar línur“ en að endingu segir: „Svo kveð ég þig minn elsku vinur. Eilífur Guð annast þig, styrkja þig og blessa. Þess biður þín elskandi móðir. Rósa Jóhannsdóttir.“

Hrólfur fluttist til Reykjavíkur árið 1936 og bjó þar til 1968 þegar þau Njála fluttust í heimahaga hennar í Vestmannaeyjum. Eftir gosið 1973 fóru þau aftur til Reykjavíkur og bjuggu þar síðustu æviárin. Hrólfur lést árið 1991, nærri 80 ára, og Njála lést 1997, 88 ára að aldri.

Ósk Laufdal segist hafa alist upp í nánum samskiptum við ömmu sína, Njálu, og afa Hrólf, eins og hún nefnir hann þó að hann hafi ekki verið henni blóðtengdur. „Amma og afi voru mér afar kær. Bréfið er afskaplega fallegt og skrifað um það leyti sem hann var að kynnast ömmu,“ segir Ósk en hún samdi ljóð um afa sinn og gaf út í ljóðabókinni Ljóð og myndir.

Þá hefur hún samið texta um ömmu sína og búið til myndband og sett á Youtube. Textann samdi hún við lagið Almaz og nefnist hann einfaldlega Amma. Ósk hefur að auki samið aðra ljóðabók, gefið út og myndskreytt þrjár barnabækur og málað myndir.

„Elskulegi góði sonur“

Hér kemur brot úr bréfi Rósu Jóhannsdóttur til sonar síns, fært yfir á íslensku nútímans:

„Hjartans minn elskulegi góði sonur ætíð sæll og blessaður. Guð gefi þér allar stundir góðar og gleðilegar elsku vinur. Mikið þakka ég þér vel fyrir þínar góðu jólagjafir, peningana og svo þessa hlýju góðu nátttreyju sem ég hef alltaf legið og sofið í. Mér þótti reglulega vænt um þessar þínar góðu gjafir og sem ég bið algóðan Guð að launa þér og blessa þig og margfalda þín efni og atvinnu.

Elsku vinur, nú er heilsan farin hjá mér, ég lá rúmföst í mánuð fyrir jól. Síðan hef ég klæðst, mér leiðist að geta ekkert gert sem teljandi er. Vinstri höndin lamaðist og fingurnir máttlausir, krepptir inní lófann en nú er ég farin að geta rétt úr fingrunum og fá mátt í þá dálítinn en þó get ég ekkert prjónað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert