Eldur í verkstæði á Akureyri

Myndin, sem tekin var í morgun, sýnir skemmdirnar sem urðu …
Myndin, sem tekin var í morgun, sýnir skemmdirnar sem urðu í brunanum í nótt. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Eldur kom upp í litlu bifreiðaverkstæði við Fjölnisgötu á Akureyri rétt eftir klukkan hálf eitt í nótt. Lögregla sem átti leið hjá sá eld koma frá húsinu og skömmu síðar kom maður hlaupandi út en hann hafði verið að störfum á verkstæðinu.

Maðurinn sem var á verkstæðinu var að rafsjóða í vélarhlíf bifreiðar.

Verkstæðið er í einu bili í stærra húsnæði og breiddist eldurinn fljótt út í þrjú bil til viðbótar. Maðurinn sem komst út úr húsinu var einn þar og því ekki fleiri mannslíf í hættu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Akureyri var eldurinn töluverður og skemmdir miklar. Bílaverkstæðið og glerverkstæði í næsta bili eru ónýt og einnig tvö verkstæði í tveimur bilum til viðbótar illa farin. Bíllinn sem maðurinn vann við á verkstæðinu er gjörónýtur.

Allt tiltækt lið var kallað út, þar á meðal liðsauki frá Isavia á Akureyrarflugvelli. Á bilinu 15 – 20 manns fóru á vettvang á þremur dælubílum, einum körfubíl og þremur sjúkrabílum. Slökkvistarfi er lokið er en enn er vakt á staðnum.

Slökkvilið að störfum í nótt.
Slökkvilið að störfum í nótt. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
Frá vettvangi í nótt. Rífa þurfti þakið af húsinu.
Frá vettvangi í nótt. Rífa þurfti þakið af húsinu. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert