Fékk rétta greiningu og tilvísun

Ljósmynd frá barkaígræðslunni.
Ljósmynd frá barkaígræðslunni. ljósmynd/Karólínska stofnunin

Starfsfólk Landspítalans mun veita sjálfstæðri rannsóknarnefnd Alþingis allar upplýsingar um aðkomu spítalans að meðferð manns sem lést eftir umdeilda barkaígræðslu verði hún stofnuð, að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans. Könnun spítalans sjálfs hafi ekki leitt í ljós mistök.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði á Alþingi í gær að rétt væri að þingið skoðaði að koma á fót rannsóknarnefnd til þess að rannsaka aðkomu íslenskra stofnana að meðferð mannsins.

Maðurinn var erlendur en var búsettur hér á landi þegar hann greindist með krabbamein í hálsi. Niðurstaða starfsmanna Landspítalans að fenginni ráðgjöf kollegra þeirra erlendis var sú að ekki væri hægt að skera meinið.

Því hélt maðurinn utan og undirgekkst tilraunakennda meðferð á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð í júní 2011 þar sem plastbarki húðaður stofnfrumum var græddur í hann. Þetta var í fyrsta skipti sem slík aðgerð var gerð. Íslensku læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson tóku þátt í meðferð mannsins og Tómas aðstoðaði meðal annars við aðgerðina. Sjúklingurinn lést tveimur og hálfu ári síðar vegna vandamála sem komu upp.

Aðgerðin hefur dregið dilk á eftir sér og hefur saksóknari í Svíþjóð tekið málið upp. Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini sem stóð fyrir aðgerðinni og nokkrum öðrum hefur verið sakaður um að birta misvísandi grein um tilraunir sína í læknaritinu Lancet og gert aðgerðir í leyfisleysi. Macchiarini var rekinn frá Karólínska í mars með þeim orðum að rannsóknir hans og hegðun hafi ekki samræmst störfum hans fyrir sjúkrahúsið. Rektor sjúkrahússins hafði áður sagt af sér vegna málsins.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert

Fleiri komu að máli en Tómas og Óskar

Páll segir að innanhússkönnun Landspítalans hafi ekki leitt í ljós mistök við greiningu mannsins eða tildrög þess að honum var vísað til Karólínska sjúkrahússins.

„Greining mannsins var rétt og það var rétt ákvörðun og rétt að henni staðið að vísa manninum til meðferðar á eina af fremstu stofnunum heims á sviði krabbameinsmeðferðar,“ segir Páll.

Hins vegar segir forstjórinn ástæðu til þess að fara yfir hvernig samskiptum Karólínska og Landspítalans var háttað í framhaldinu eftir að sjúklingurinn var kominn til meðferðar þar.

„Um það hafa starfsmenn okkar veitt sænskum rannsóknarnefndum fullar upplýsingar,“ segir Páll sem bendir á að mun stærri hópur innan Landspítalans hafi komið að meðferð sjúklingsins en aðeins þeir Tómas og Óskar.

Hann gerir athugasemd við það sem kom fram í bréfi siðfræðistofnunar Háskóla Íslands til heilbrigðisráðherra þar sem fullyrt var að sænskir rannsóknaraðilar hafi ekki haft aðgang að gögnum hér á landi.

„Það er ekki rétt. Sænskir rannsóknaraðilar höfðu aðgang að gögnum hér. Við höfum þegar veitt þær upplýsingar. Við munum vera í samstarfi við siðfræðistofnun og aðra aðila líka ef það vantar frekari upplýsingar um aðkomu okkar að þessum rannsóknum,“ segir hann.

Í bréfi siðfræðistofnunar segir að plastbarkamálið sé eitt alvarlegasta siðferðisslys í heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndunum. Stofnunin hvetur til íslenskrar rannsóknar á málinu.

Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini sem hefur verið sakaður um vafasöm …
Ítalski læknirinn Paolo Macchiarini sem hefur verið sakaður um vafasöm vinnubrögð í kringum barkaígræðslurnar.

Markmiðið að upplýsa málið

Komi til þess að Alþingi skipi sjálfstæða rannsóknarnefnd segir Páll sjálfsagt að starfsfólk Landspítalans veitti þeirri nefnd allar upplýsingar eins og þeim sænsku rannsóknarnefndum sem hafa farið yfir málið.

„Markmiðið er náttúrulega að upplýsa málið og hjálpa til við það. Bæði að upplýsa aðkomu Landspítalans og háskólans og þessa meðferð sem fór fyrst og fremst fram á Karólínsku stofnuninni og sjúkrahúsinu,“ segir Páll.

Í yfirlýsingu frá Tómasi og Óskari í tengslum við rannsókn saksóknara á málinu í fyrra kom fram að þeir hafi ekki komið að öðrum aðgerðum ítalska læknisins. Ákvörðun um aðgerðina hafi verið tekin í góðri trú. Tvímenningarnir hafi verið á meðal 28 meðhöfunda greinar Macchiarini í Lancet um fyrstu aðgerðina en framlag þeirra hafi fyrst og fremst verið að lýsa líðan sjúklingsins fyrir meðferðina. Þeir hafi aðstoðað báða málsaðila við rannsóknina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert