Samþykkt að hækka endurgreiðslur

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu. mbl.is/Rósa Braga

Alþingi samþykkti í kvöld að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar úr 20% í 25%, framlengja endurgreiðslukerfið um fimm ár og einfalda stjórnýsluna í þessum málum.

Um var að ræða frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Helsta ástæða þess að lagt er til að hlutfall endurgreiðslu verði hækkað í 25%, að því er fram kom í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu fyrr í vetur, er að tryggja að Ísland verði áfram samkeppnishæft sem tökustaður erlendra kvikmyndaverkefna. Alþjóðleg samkeppni landa og landsvæða á þessu sviði fari stöðugt vaxandi og sem dæmi megi nefna að í janúar tóku gildi lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í Noregi þar sem hlutfall endurgreiðslna er 25%.

Endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar var komið á á árinu 1999. Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá síðasta ári kemur fram að um eitt þúsund manns vinni árlega við og í tengslum við kvikmyndaverkefni sem njóta endurgreiðslu. 

Að óbreyttu áttu lögin að falla úr gildi 31. desember 2016, en nú hefur verið samþykkt að framlengja gildistími þeirra um fimm ár, þ.e. til 31. desember 2021.

Sigríður ein á móti

Þrjátíu og átta þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en einn, Sigríður Ásthildur Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði á móti. 

Hún sagðist við atkvæðagreiðsluna í dag margoft hafa lýst yfir efasemdum sínum við ívilnanir af þessu tagi, bæði með vísan til samkeppnissjónarmiða og eðlis máls. 

„Burtséð frá því hvort ívilnun sem þessi eigi rétt á sér tel ég alveg einsýnt að það er hvorki tilefni né efni til þess að auka þá niðurgreiðslu til erlendrar kvikmyndaframleiðslu úr höndum íslenskra skattgreiðenda sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir,“ sagði hún.

Ferill málsins á þingi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert