Setur evrusvæðið í frekara uppnám

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér finnst einna áhugaverðast hvernig Evrópusambandið á eftir að bregðast við þessu. Ég efast ekki um að Bretar eigi eftir að vinna vel úr sínum málum. Bretland er eitt af öflugustu ríkjum veraldar og þeir munu klára sitt. Fyrir okkur Íslendinga skiptir auðvitað mestu máli að við sjáum sem fyrst til lands varðandi viðskiptasamband okkar við Breta. Hins vegar má ekki gleyma því að það er ekkert að fara að gerast næstu dagana. Það verður engin kollsteypa.“

Þetta segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í samtali við mbl.is um þá ákvörðun breskra kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í gær að segja skilið við Evrópusambandið. Atburður sem kallaður hefur verið Brexit í Bretlandi, það er „British exit“. Grundvallaratriði í þessum efnum sé framtíð evrusvæðisins sem sé ákveðinn kjarni sambandsins. Ljóst sé að eigi evrusvæðið að lifa af þurfi frekari samruni að eiga sér stað í áttina að því markmiði margra ráðandi aðila innan Evrópusambandsins að skapa evrópskt sambandsríki.

„Það verður stórkostleg áskorun fyrir stjórnmálamenn innan Evrópusambandsins að finna út úr því hvernig þeir ætla að taka þær ákvarðanir sem þeir þurfa að taka í þeim efnum og koma á þeim breytingum sem þeir þurfa að gera í þeim ríkjum sem nota evruna á sama tíma og almenningur er í sívaxandi mæli andsnúinn því að færa völd frá sér til Evrópusambandsins með þeim hætti sem þarf að gera til að bjarga evrusvæðinu,“ segir Illugi.

Meiri samruni erfiðari í kjölfar Brexit

„Þessi niðurstaða í Bretlandi mun ýta mjög undir þá sem vilja ekki fara slíka leið innan evrulandanna. Það munu margir kalla eftir sambærilegum atkvæðagreiðslum í sínum löndum og þetta mun gera þeim sem þurfa að taka þessar ákvarðanir í átt að auknum samruna erfiðara að taka þau skref og fá til þess lýðræðislegt umboð. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir leiðtoga evruríkjanna hvernig þeir ætla að bregðast við þessu.“

Sú skoðun hafi heyrst að auðveldara verði að koma á auknum samruna eftir að Bretland fari úr Evrópusambandinu þar sem þeir hafi verið erfiðir í samstarfi en Illugi telur að það verði þvert á móti erfiðara vegna þess fordæmis sem Bretland setji með ákvörðun sinni. „Þetta mun þýða vind í segl þeirra sem eru á móti auknum samruna innan Evrópusambandsins og það er sú skoðun sem er hvað mest vaxandi í Evrópu. Þetta verður stóra málið.“

Hvað varðar áhrifin hér á landi segir Illugi að mestu skipti fyrir Ísland að tryggja viðskiptahagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi. Þá annaðhvort í gegnum EFTA eða með beinum hætti. Það færi eftir því hvaða samningar tækjust á milli Breta og Evrópusambandsins. Þær viðræður tækju að minnsta kosti tvö ár þannig að viðskipti á milli ríkjanna héldu áfram eins og áður. Ekkert væri að gerast sem kallaði á neinar skjótar ákvarðanir.

Mun fækka í hópi Evrópusambandssinna

„Hvað pólitísku áhrifin hér á landi varðar þá eru nú ekki margir lengur að tala fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Einhverjir dulbúa sig með því að þeir vilji ljúka samningum sem treysta sér ekki alveg til þess að mæla með því að Ísland gangi í sambandið. Við vitum auðvitað að það er ekki um neina samninga að ræða heldur bara aðlögunarferli. En ég held að það muni enn fækka í þeim hópi sem telur að það sé gott fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.“

Þá sé enginn tilgangur að sækja um inngöngu í Evrópusambandið ef ekki er vilji til að fara þangað inn. Til þess þurfi ríkisstjórn sem sé hlynnt inngöngu og hafi að baki sér bæði þing og þjóð. „Þessi atburður mun draga enn úr rökunum fyrir því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Þegar ríki sem er með yfir 10% af viðskiptunum við Ísland er að fara út þá er auðvitað augljóst hvaða afleiðingar það hefur.“

Spurður um áhrif á forsetakosningarnar á morgun segir Illugi að það eigi eftir að koma í ljós. Hins vegar hljóti þessi tíðindi að grafa mjög undan málflutningi þeirra sem telji að Ísland eigi að sækja um inngöngu í Evrópusambandið eða hefja einhverjar viðræður um slíkt. „Þessi atburður grefur mjög undan slíkum málflutningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert