Ekki allt fengið með flugi til Frakklands

Veðurhorfur á landinu á laugardag klukkan 12:00.
Veðurhorfur á landinu á laugardag klukkan 12:00. Skjáskot af vef Veðurstofu Íslands

Landsmenn þurfa ekki að láta sér leiðast um helgina því mikil dagskrá er víða um land. Í Vestmannaeyjum er haldið upp á goslok með goslokahátíð, Írskir dagar fara fram á Akranesi, Landsmót hestamanna á Hólum í Hjaltadal og Pollamótið á Akureyri svo fátt eitt sé nefnt.

Veðurhorfur á landinu 

„Það er ekki allt fengið með því að fljúga til Frakklands en það er örugglega hlýrra þar,“ segir Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Spáð er norðlægri átt alla helgina með vætu lengst af á Norður- og Norðausturlandi. Hætta er á lítilli úrkomu á Vesturlandi í dag. Það verður því besta veðrið á Suðurlandi og Suðausturlandi um helgina og fer hitinn mest upp í 16 gráður sunnan til.

„Sums staðar á Suðurlandi og Suðausturlandi verður fínasta veður á landinu um helgina. Fólk þarf bara að finna sér skjól fyrir norðanáttinni,“ segir Óli Þór að lokum.

Það verður mikið fjör í Vestmannaeyjum um helgina.
Það verður mikið fjör í Vestmannaeyjum um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

Goslokahátíð Vestmannaeyja

Goslokahátíðin er bæjarhátíð í Vestmannaeyjum þar sem endalokum eldgossins á Heimaey 1973 er fagnað. Hátíðin er alltaf fyrstu helgina í júlí og var fyrsta samkundan árið 1974. En gosinu lauk 3. júlí 1973. Hátíðin samanstendur af menningar og tónlistarviðburðum bæði á vegum sveitarfélagsins sem og einkaaðila.

Írskir dagar á Akranesi.
Írskir dagar á Akranesi. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Írskir dagar á Akranesi

Írar námu land á Skaga á fyrstu árum Íslandsbyggðar en nafnið Akranes kom til síðar og er dregið af kornrækt og akuryrkju sem þótti heppileg á hinu frjósama landi sem er á Akranesi. Í byrjun júlí ár hvert halda Skagamenn hátíðlega hina svokölluðu Írsku daga til að minnast hinnar írsku arfleifðar sinnar og gera sér glaðan dag um leið. Þessa daga eru brottfluttir Skagamenn kallaðir heim og á Írskum dögum er fjölskyldufólk sérstaklega boðið velkomið í heimsókn á Akranes. Á Írskum dögum fer Akranes í sparibúninginn sem er í írsku fánalitunum.

Landsmót hestamanna er haldið á Hólum í Hjaltadal.
Landsmót hestamanna er haldið á Hólum í Hjaltadal. mbl.is/Styrmir Kári

Landsmót hestamanna

Landsmót hestamanna fer fram dagana 27. júní til 3. júlí að Hólum í Hjaltadal en hápunkturinn er nú um helgina. Landsmót hestamanna var síðast haldið að Hólum árið 1966 og var því ákveðið að fagna því að slétt fimmtíu ár eru liðin frá því með að halda mótið á þessum sögufræga stað að nýju. Hólar var biskupssetur um aldir en nú er Háskólinn á Hólum miðstöð fyrir kennslu og rannsóknir í hrossarækt.

Um helgina fer Pollamótið fram á Akureyri.
Um helgina fer Pollamótið fram á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Pollamótið á Akureyri

Pollamót Þórs og Icelandair er árlegur íþróttaviðburður sem fer fram í byrjun júlí. Mótið hefst á fimmtudagsmorgni og lýkur með lokahófi á laugardagskvöldinu. Á þessu móti taka þátt kempur kvenna og karla í eldri kantinum sem rifja upp gamla takta í knattspyrnu. Mótið fer fram á Íþróttasvæði Þórs við Hamar á Akureyri.

Þá geta Íslend­ing­ar fylgst með leik Íslands í fjórðungs­úr­slit­um Evr­ópu­móts­ins á risa­skjá víðar en við Arn­ar­hól í Reykja­vík, en að minnsta kosti fjór­ir slík­ir skjá­ir verða sett­ir upp ann­ars staðar á land­inu fyr­ir leik­inn á sunnu­dags­kvöld. Það er því um að gera að skella sér út á land. 

Frétt mbl.is - Risaskjáir víða á sunnudag 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert