Tuttugu fíkniefnamál á Eistnaflugi

Frá Eistnaflugi.
Frá Eistnaflugi.

Tuttugu fíkniefnamál hafa komið upp hjá lögreglunni á Eskifirði í tengslum við tónlistarhátíðina Eistnaflug síðastliðnar tvær nætur. Fjórtán mál komu upp í fyrrinótt og sex í nótt. Lagt hefur verið hald á neysluskammta af kannabis, MDMA, e-töflum og LSD.

Að sögn Jónasar Wilhelmssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Eskifirði, hefur einnig verið talsvert um ölvun. Að öðru leyti hafi hátíðin farið ágætlega fram, og henni hafi ekki fylgt slagsmál. Um þrjú þúsund gestir eru á hátíðinni, eða tvöfalt fleiri en bæjarbúar í Neskaupstað. 

Jónas segir að fjöldi fíkniefnamála sé svipaður og síðustu ár, en þó sé það nýtt að LSD sjáist á hátíðinni. „Það er verulegt áhyggjuefni að okkar mati. Þetta er nokkuð sem við höfum ekki séð hér fyrir austan í mörg ár,“ segir hann og bætir við að slík mál haldi lögreglunni á tánum. 

Þá var húsleit gerð á Fljótsdalshéraði í gær þar sem lagt var hald á umtalsvert magn af fíkniefnum og peningum. Málið tengist tónlistarhátíðinni ekki að sögn Jónasar. 

Þá var í nótt ekið á gangandi vegfaranda við Egilsbúð og hann fluttur á sjúkrahús lítið slasaður.

Í kvöld fer fram síðasta kvöldið á hátíðinni, og jafnframt það stærsta. Þá stíga stærstu hljómsveitirnar á svið, þar á meðal Opeth og Meshuggah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert