Stefnir í næturfrost fyrir norðan

Þeir sem ætla að skreppa í berjamó þetta árið ættu …
Þeir sem ætla að skreppa í berjamó þetta árið ættu að fara að huga að því fljótlega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef fer sem horfir að vindur verði mjög hægur í nótt og léttskýjað nokkuð víða má búast við næturfrosti, einkum þó um landið norðanvert, samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands. Fyrr í vikunni fraus á nokkrum stöðum á Suðurlandi, meðal annars í Þykkvabænum en klukkan sex á mánudagsmorgun mældist þar tveggja stiga frost. Að sögn veðurfræðings fraus á örfáum stöðum á Suðurlandi þá nótt en ef spáin gengur eftir mun frjósa nokkuð víða fyrir norðan í nótt.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Norðaustlæg átt 3-10 m/s og víða rigning eða súld með köflum N- og A-til á landinu, 8-15 og úrkomulítið NV-til, en hægari SV-lands. Dregur úr vindi í dag, léttir til um landið V-vert og úrkomulítið fyrir norðan, en áfram rigning SA-til. A-læg átt, 5-10 syðst á morgun, en annars hægari. Smá væta af og til um landið S-vert, en annars þurrt. Hiti 4 til 10 stig N-lands í dag, en upp í 16 stiga hiti syðst. Hlýnar fyrir norðan á morgun.

Á fimmtudag:
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s, bjart með köflum og smáskúrir, einkum S- og V-til, en austan 8-13 með S-ströndinni fram yfir hádegi. Hiti 8 til 14 stig, mildast V-lands.

Á föstudag:
Austlæg átt, 5-13 syðst, en annars hæg. Bjart með köflum, en stöku skúrir með S-ströndinni. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:
Norðaustlæg átt, skýjað en úrkomulítið og kólnar í veðri fyrir norðan og austan. Bjart með köflum um landið V-vert, en stöku skúrir S-lands og hiti 9 til 15 stig.

Á sunnudag og mánudag:
Austlæg átt og líkur á lítils háttar vætu S-til, annars úrkomulítið. Hiti 7 til 13 stig, mildast SV-til.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt. Skýjað og dálítil væta um landið vestanvert, en þurrt annars staðar. Hiti breytist lítið.

Veður á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert