Varað við roki á morgun

Það má búast við hvössum vind í Mýrdalnum á morgun.
Það má búast við hvössum vind í Mýrdalnum á morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vegfarendur eru varaðir við snörpum vindhviðum á morgun í Öræfum, Mýrdal, á Vestfjörðum og við Breiðafjörð, einkum í ökutækjum eða með aftanívagna sem geta orðið óstöðug í hvössum vindi. Þetta kemur fram í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.

Vakthafandi veðurfræðingur segir að von sé á haustlegu veðri næstu daga. Skúrir sunnan- og vestantil á landinu í dag, en hvessir af norðaustri og fer að rigna síðdegis á morgun, fyrst á suðausturlandi.

Búast má við talsverðri eða mikilli rigningu á austanverðu landinu. Hiti 5 til 12 stig að deginum. Veðrið gengur niður seint á fimmtudag og á föstudag er útlit fyrir austan golu eða kalda með skúrum, en yfirleitt þurru og björtu veðri fyrir norðan.

Á fimmtudag:

Norðan 13-18 m/s NV-til, en annars suðaustan 8-15 og víða rigning eða skúrir, en úrkomulítið NA-lands. Hiti 8 til 13 stig.

Á föstudag:
Austan og norðaustan 8-15 m/s og skúrir, hvassast við S-stöndina og jafn vel rigning þar. Hiti 5 til 12 stig.

Á laugardag, sunnudag og mánudag:
Norðanáttir og vætusamt, einkum fyrir norðan og kólnar heldur á þeim slóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert