Saurgerlar í neysluvatni Súðvíkinga

Íbúar í Súðavík eru beðnir að sjóða allt neysluvatn.
Íbúar í Súðavík eru beðnir að sjóða allt neysluvatn. mbl.is/Golli

Saurgerlar fundust í neysluvatni Súðvíkinga. Tilkynnt var um þetta á vef sveitarfélagsins í morgun. Í frétt á vef sveitarfélagsins segir að tilkynning um þessa niðurstöðu hafi borist í morgun.

Af þessum sökum eru íbúar Súðavíkur beðnir um að sjóða allt neysluvatn í varúðarskyni.

Fyrr í haust bárust fréttir af því að neyslu­vatn á Flat­eyri hefði verið mengað af saur­gerl­um í 16 daga án þess að íbú­ar bæj­ar­fé­lags­ins væru upp­lýst­ir um það.

Anton Helgason framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, segir að engin tengsl séu á milli saurgerlamengunarinnar á Flateyri nýverið og Súðavíkur nú. Mengunina á Súðavík megi væntanlega rekja til mikillar úrkomu að undanförnu. Við sýnatöku í morgun hafi mengunin komið í ljós og ákveðið var að láta bæjarbúa strax vita. Annað sýni verður tekið síðar í dag en enn er of snemmt að segja til hvað valdi menguninni núna.

Áður hafi íbúar ekki verið upplýstir fyrr en það hefur legið ljóst fyrir að um mengun sé að ræða, það er við aðra sýnatöku, því það geti alltaf eitthvað komið upp við sýnatöku sem geri það að verkum að niðurstaðan sé kannski rétt. En greinilegt sé að fólk vilji fá upplýsingar strax og því verði það þannig í framtíðinni að tilkynning verður send út um leið og grunur leikur á að um saurgerlamengun sé að ræða.

Frétt mbl.is: Vissu af saurgerlamengun á Flateyri 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert