Segir Katrínu vera góðan verkstjóra

Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir …
Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir í bakgrunni við fjölmiðla. mbl.is/Golli

„Við vorum að ræða um þau verkefni sem myndu bíða nýrrar ríkisstjórnar og hvort það sé einhver málefnalegur ágreiningur í þessum stóru pólum. Við skynjuðum ekki að það væri það langt á milli að það væri ekki hægt að brúa,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, að loknum fundi með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í Alþingishúsinu.

„Við vorum búin að vinna töluvert mikla forvinnu fyrir kosningar þegar fjórir flokkar hittust og fóru yfir nánast það sama. Þá var ekki hægt að greina það mikinn málefnaágreining að það væri ekki tilefni til að þess að lýsa því yfir að þessir flokkar gætu unnið saman eftir kosningar.“

Birgitta sagðist tilbúin til að taka þátt fjölflokkastjórninni sem Katrín vill mynda. „Ég held að Katrín sé góður verkstjóri, það skiptir miklu máli. Hún nýtur trausts hjá mjög mörgum.“

Katrín ásamt Pírötum í Alþingishúsinu.
Katrín ásamt Pírötum í Alþingishúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við mbl.is fyrr í dag að hann hefði miklar efasemdir um að fimm flokka stjórn gæti starfað. Nefndi hann sem dæmi að í henni yrði nýtt fólk með litla reynslu af þingi.

Frétt mbl.is: Miklar efasemdir um fimm flokka stjórn

Birgitta sagði að rétt sé að skoða söguna í þessu samhengi, til dæmis hvernig gekk hjá þremur síðustu ríkisstjórnum.

„Ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn átti aðild að lifði ekki af kjörtímabilið. Tvær ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að lifðu ekki af kjörtímabilið og það var með herkjum að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lifðu af kjörtímabilið. Það sýnir mér að ef til vill er þessi mýta um að það sé gott að hafa sterkar tveggja flokka ríkisstjórnir sé ekki endilega svarið, heldur skipti höfuðmáli hvernig undir er að slíkri samvinnu,“ greinir Birgitta frá.

„Þannig undirbúningur þarf að innihalda mjög skýra verkferla og hvernig á að framfylgja þeim. Jafnframt þarf skýra ferla í kringum óvæntar atburðarásir sem eiga sér alltaf stað. Ég hef engar áhyggjur þó að það sé eitthvað um nýja þingmenn. Það er ekki mikil þingreynsla í þinghúsinu ef maður dregur alla saman," sagði Birgitta.

„Ég hef töluvert langa þingreynslu. Þrír af okkar þingmönnum hafa verið á þingi áður og tveir varamenn. Þannig að fimm af þessum tíu þingmönnum okkar hafa tekið sæti á Alþingi. Hjá hinum flokkunum er þetta að sjálfsögðu misjafnt en fólk hefur sem betur fer mikla verkreynslu þó að það sé ekki inni á Alþingi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert