Andlát: Hallvarður Einvarðsson

Hallvarður Einvarðsson.
Hallvarður Einvarðsson.

Hallvarður Einvarðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, lést 8. desember síðastliðinn, 85 ára að aldri.

Hallvarður var fæddur í Reykjavík 2. desember 1931, sonur Vigdísar Jóhannsdóttur húsfreyju og Einvarðs Hallvarðssonar, starfsmannastjóra Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands.

Hallvarður varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og stundaði laganám við Háskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist sem cand. jur. 1958. Hann stundaði framhaldsnám í stjórnmálafræði við University of Wisconsin í Madison, Wisconsin, og í þjóðarétti og frönsku við Sorbonne-háskóla í París. Hann fékk lögmannsréttindi fyrir héraðsdómi 1965, löggildingu til flutnings opinberra mála sama ár og málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti árið 1968. Hann starfaði í varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins frá 1954-1955, en að loknu laganámi gerðist hann fulltrúi hjá borgarfógetanum í Reykjavík. Árið 1961 varð hann fulltrúi hjá saksóknara ríkisins frá stofnun embættisins og aðalfulltrúi þar frá 1963. Hann var skipaður vararíkissaksóknari 1974 og settur saksóknari ríkisins um skeið. Árið 1977 var hann skipaður rannsóknarlögreglustjóri ríkisins frá stofnun þess embættis, en var síðan skipaður ríkissaksóknari 1986. Hann var aðjunkt við lagadeild Háskóla Íslands frá 1973 til 1977, en sinnti einnig stundakennslu eftir það. Hann sat í ýmsum nefndum á vegum hins opinbera, einkum á sviði sakamála, lögreglufræða og skattamála. Þá var hann í stjórnum Sakfræðingafélags Íslands og Lögfræðingafélags Íslands og formaður þeirra um skeið.

Hallvarður kvæntist Guðrúnu S. Karlsdóttur árið 1963 og eignuðust þau tvö börn, Elínu Vigdísi og Einar Karl. Eftirlifandi eiginkonu sinni, Erlu Magnúsdóttur Kjærnested, kvæntist Hallvarður árið 1984, en börn hennar eru Anna Sigurveig, Ragna, Emil og Sunna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert