„Hún er ekki á flótta undan einhverju“

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, á fundinum í dag.
Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, á fundinum í dag. mbl.is/Golli

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur sem hefur verið týnd frá því á laugardaginn, segir að í sínum huga sé skýrt að dóttir sín sé í hættu. „Hún er ekki að velja þetta, er ekki þannig stelpa. Hún er ekki á flótta undan einhverju og ekki verið í efnum. Það er einhvers staðar verið að halda henni, hún er ekki sjálfviljug einhvers staðar.“ Þetta sagði hún í samtali við blaðamenn eftir fréttamannafund lögreglunnar í dag.

Birna sást síðast rétt við Laugaveg 31, en þar dettur hún út af myndavélum lögreglunnar í miðbænum. Myndbrot úr myndavélunum voru birt fyrr í kvöld. Lögreglan segir að meðal annars sé skoðað hvort Birna hafi farið niður Vatnsstíg eða hvort hún hafi farið það hægt um að myndavélarnar hafi ekki greint það og því ekki kveikt á upptöku, en þær taka aðeins upp þegar hreyfing á sér stað.

Sigurlaug sagði að eitt af því sem henni dytti í hug tengdist því að Birna hefði nýlega skráð sig á Tinder-stefnumótaforritið. Í gegnum forritið getur fólk náð sambandi við aðra og mælt sér mót. Lögreglan tók þó fram á fundinum í dag að samkvæmt myndavélum benti ekkert til þess að Birna hefði notað síma sinn á leiðinni frá Austurstræti upp Bankastræti og Laugaveg.

Sigurlaug sagði að Birna hefði verið dugleg að kynnast erlendum gestum í gegnum forritið og síðasta vor meðal annars farið tvisvar gullna hringinn með ferðamenn sem hún hafði kynnst. „Ekki til að vera með þeim heldur meira til að eignast vini og búa til tengsl,“ sagði Sigurlaug.

Forsvarsmenn lögreglunnar sátu fyrir svörum á fundinum.
Forsvarsmenn lögreglunnar sátu fyrir svörum á fundinum. mbl.is/Golli

Sigurlaug sagði að unnið væri að því að komast inn á Tinder-reikning Birnu, en að til þess vantaði lykilorð hennar.

Þá viðurkenndi hún að hafa orðið fyrir vonbrigðum með þá ákvörðun að ekki yrði leitað í nótt. Að öðru leyti sagðist hún rosalega þakklát og í góðum samskiptum við lögregluna. Sérstaklega hafi hún verið ánægð þegar hún fékk þær upplýsingar að mikil vinna væri í gangi þegar hún vissi ekki hvort lögreglan væri að gera eitthvað. „En ég vil auðvitað bara finna stelpuna,“ segir Sigurlaug.

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir. Facebook

„Hún á fáa rosalega góða vini, en svolítið mikið af kunningjum. Er opin stelpa sem er fljót að kynnast,“ segir Sigurlaug spurð um vini Birnu og við hverja hún hefði mögulega átt í samskiptum umrætt kvöld. Segist hún helst horfa til þess að Birna hafi hitt ferðamann á Laugaveginum. „Vil helst ekki hugsa neitt um hvað hafi hugsanlega gerst, það er svo margt,“ segir hún og bætir við að þetta sé alla vega skýring sem gefi von: „að hún hafi farið upp í bíl með einhverjum og sé haldið einhvers staðar.“

Sigurlaug telur einnig ólíklegt að Birna hafi sjálf skaðað sig. Segir hún slíkt auðvitað alltaf geta komið fólki í opna skjöldu, en það hafi verið upplifun hennar og vina Birnu að hún væri í fínu jafnvægi og ekki líkleg til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert