Stýri stolið úr BMW-bifreið

Mikið hefur verið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu.
Mikið hefur verið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Brotist hefur verið inn í fjölda bíla á Seltjarnarnesi undanfarna daga. Skráð tilvik hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðustu tvo daga eru fimm talsins en samkvæmt heimildum mbl.is hefur verið brotist inn í sextán bíla. Stýri og hluta af mælaborði var einnig stolið úr BMW-bifreið á Seltjarnarnesi fyrr í mánuðinum.

Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni, segir að af þeim fimm bifreiðum sem farið var inn í hafi þrjár verið ólæstar.

Spurður út í BMW-bifreiðina segist hann ekki kannast við að slíkt tilvik hafi áður komið upp. Aftur á móti séu sams konar afbrot þekkt erlendis í tengslum við sömu tegund af BMW-bifreiðum.

Rafn Hilmar hefur ekkert heyrt af því að verið sé að stela varahlutum úr bílum hér á landi en alltaf séu að koma upp mál vegna þjófnaðar á dekkjum, ljóskösturum eða öðrum slíkum hlutum.

Hann telur ólíklegt að sá sem braust inn í bílana fimm hafi einnig stolið stýrinu og hluta af mælaborði BMW-bifreiðarinnar. 

Að sögn Rafns Hilmars hefur verið mikið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Brotist hefur verið inn í bíla, auk þess sem töluvert hefur verið um innbrot í fyrirtæki á svæði 105 og 108.

Horft yfir Vesturbæinn og út á Seltjarnarnes.
Horft yfir Vesturbæinn og út á Seltjarnarnes. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert