Fylgjum eftir öllum vísbendingum

Fjórhjól eru notuð til að keyra slóða og stíga í …
Fjórhjól eru notuð til að keyra slóða og stíga í leit að Birnu. mbl.is/Eggert

Það er mikill einhugur í þeim björgunarsveitarmönnum sem nú taka þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Leitin er sú umfangsmesta sem björgunarsveitir Slysvarnafélagsins Landsbjargar hafa staðið fyrir. Við leitina, sem um 500 manns taka þátt í, eru notaðar tvær þyrlur, 15-20 fjórhjól, 11 leitarhundar, 10 drónar og allur bílakostur björgunarsveitanna, auk fjölmargra einkabíla sem notaðir eru til að ferja leitarfólk á milli staða.

„Maður sér að það er fólk að rífa fram gallann sem ekki hefur tekið þátt í nokkur ár. Það er að koma núna inn og hjálpa til við að finna Birnu,“ segir Elva Tryggvadóttir, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu. „Ég sá mörg kunnugleg andlit í morgun sem ég hafði ekki séð í nokkurn tíma, en sem voru nú komin til aðstoðar.“

Leitarfræðin taka mið af hegðun fólks

Til stendur að björgunarsveitarfólk fari yfir 2.000 leitarsvæði nú um helgina. Unnið er út frá leitarfræðum þar sem tekið er mið af hegðun fólks sem til að mynda hefur villst, verið numið á brott eða villst í bíl. „Þannig að við þurfum að nota marga leitarflokka,“ segir Elva.

Tvær þyrlur eru notaðar við leitina að Birnu nú um …
Tvær þyrlur eru notaðar við leitina að Birnu nú um helgina. mbl.is/Eggert

Leitin byggist mikið á því að fara út frá slóðum og er þá ákveðinn metrafjöldi farinn út frá veginum á hverjum stað þar sem verið er að leita. Skipulagið er mismunandi eftir svæðum og eins fer það eftir samsetningu hópanna hversu stórt svæðið er.

„Við erum að ganga út frá öllum þeim vísbendingum sem koma hverju sinni. Þá eru skipulögð svæði út frá því og áætluð mannaflaþörf eftir því hvað þarf til leitar á því svæði,“ segir Elva.

Hún bendir á að þau 15-20 fjórhjól sem eru úti séu til að mynda nýtt til verkefna sem þeim henti. „Þau eru meira í að keyra slóða og stíga, á meðan sérhæfðir leitarhópar eru í þéttari leit að fínni vísbendingum.“ Þannig fari gönguhópar til að mynda yfir hraunin.

Tvær þyrlur, 11 hundar og 10 drónar

Tvær þyrlur eru þá nýttar við leitina að Birnu. Tveir leitarmenn hafa verið á ferð með þyrlu Landhelgisgæslunnar. „Síðan kom Norðurflug og bauð fram sína þjónustu og við erum búin að vera með fjóra leitarmenn í þeirra þyrlu,“ segir Elva.

Gönguhópar leitarmanna eru notaðir til að fara yfir hraunið.
Gönguhópar leitarmanna eru notaðir til að fara yfir hraunið. mbl.is/Eggert

11 leitarhundar eru á ferð með björgunarsveitarfólki, bæði víðavangs- og snjóflóðahundar, og geta hundarnir farið yfir stór svæði á skömmum tíma. Hvern hund er hægt að nota við leit í 3-4 tíma í senn, en að þeim tíma loknum verður hundurinn að fá smá hvíld áður en hann getur haldið áfram.

Drónar henta líka vel til ákveðinna verkefna og eru 10 drónar notaðir við leitina að Birnu nú um helgina. „Í upphafi vorum við til að mynda mikið að nota dróna með hitamyndavélar,“ segir Elva.

Drónar henta vel á svæði sem geta verið erfið yfirferðar og má nefna sem dæmi vatn, fjörur og önnur landsvæði sem geta verið hættulegri leitarfólki. „Við erum að fá gríðarlega flott myndefni úr þessum drónum í dag,“ segir Elva. Þeir henta þó ekki við öll skilyrði og þá er það aðallega veðrið sem spilar inn í.

„Þá áttar maður sig á hvað stundirnar eru orðnar margar“

Leitin í dag hefur gengið vel að sögn Elvu. „Það er einhugur í fólki að vinna faglega, standa sig og reyna að finna hana sem fyrst.

Björgunarsveitarfólk í stjórnstöð í Hafnarfirði er í sambandi við leitarfólk.
Björgunarsveitarfólk í stjórnstöð í Hafnarfirði er í sambandi við leitarfólk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leitaraðstæður mættu þó vera betri. „Það er vel blautt, en við erum vön að vinna í hvaða veðri sem er og veðurspáin fyrir morgundaginn er betri. Fólkið okkar er þó vel útbúið og við erum með frábærar slysavarnadeildir sem eru að sjá öllum fyrir mat og passa upp á að fólk komist líka í skjól og fái smá pásu inn á milli og annað slíkt sem við þurfum að huga að.“

Mikil vinna hefur farið í skipulagningu leitaraðgerða undanfarna daga. „Þetta er náttúrulega brjáluð vinna,“ segir Elva. „Við erum búin að vera hérna við skipulagningu í Skógarhlíð frá því síðdegis á sunnudag við að skipuleggja hvað er hægt að gera.“  

Ekki eru allir leitarslóðar auðfarnir.
Ekki eru allir leitarslóðar auðfarnir. mbl.is/Eggert

Hún segir skipulagningu við leitina að Birnu hefjast á milli klukkan 8 og 9 á hverjum morgni og verið sé að fram yfir miðnætti alla daga. Lengst hafi fólk verið að störfum til fimm einn morguninn. „Þegar barnið manns kemur og faðmar mann og maður hugsar: já, ég sá þig síðast á mánudaginn áttar maður sig á hvað stundirnar eru orðnar margar.“

Leitarsvæðið sem björgunarsveitir fara yfir nú um helgina er mjög …
Leitarsvæðið sem björgunarsveitir fara yfir nú um helgina er mjög víðfeðmt. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert