Forsetinn í opinbera heimsókn til Noregs

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, eiginkona hans, …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, eiginkona hans, veifa til mannfjöldans frá svölum Alþingishússins á Austurvelli. mbl.is/Ómar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun ásamt forsetafrúnni Elizu Reid fara í opinbera heimsókn til Noregs 21. mars. Verður hann í Ósló fyrstu tvo dagana áður en heimsókninni lýkur í Bergen 23. mars.

Fram kemur á vef forsetaembættisins að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verði með í för, ásamt opinberri sendinefnd sem í eru fulltrúar fræðasamfélags og viðskiptalífs, auk embættismanna frá utanríkisráðuneyti og embætti forseta.

Heimsóknin hefst þriðjudaginn 21. mars með formlegri móttökuathöfn við konungshöllina í Ósló. Forseti leggur síðan blómsveig að þjóðarminnismerkinu við Akershus-virki, heimsækir norska Stórþingið og flytur lokafyrirlestur á ráðstefnunni Global Challenges – Nordic Experiences við háskólann í Ósló.

Eliza Reid forsetafrú mun jafnframt flytja fyrirlestur um jafnréttismál og taka þátt í pallborðsumræðum. Að kvöldi fyrsta dags heimsóknarinnar sitja forsetahjón hátíðarkvöldverð norsku konungshjónanna, að því er segir á vef embættisins.

Fundar með forsætisráðherranum

Að morgni miðvikudagsins 22. mars eru svo ráðgerðar heimsóknir til Start-up Lab, miðstöðvar frumkvöðlafyrirtækja í Ósló, og NORLA (Norwegian Literature Abroad), kynningarmiðstöðvar norskra bókmennta á erlendri grundu.

Þá verður efnt til menningardagskrár í Þjóðarbókhlöðunni, forseti á fund með Ernu Solberg forsætisráðherra og situr hádegisverð norsku ríkisstjórnarinnar í boði forsætisráðherra. Síðdegis heimsækja forsetahjón Ólafíustofu, safnaðarheimili íslenska safnaðarins í Ósló, og bjóða til móttöku í Astrup Fearnley-listasafninu til heiðurs norsku konungshjónunum.

„Á þriðja degi heimsóknar forsetahjóna til Noregs liggur leiðin til Björgvinjar. Þar efna Innovasjon Norge og Íslandsstofa til málstofu um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hátækni og forseti flytur fyrirlestur um menningararfleifð og þjóðernishyggju við háskólann í Björgvin,“ segir að lokum á vefnum.

„Forsetahjón munu einnig heimsækja norsku hafrannsóknarstofnunina sem hefur höfuðstöðvar í borginni og Edvard Grieg-safnið áður en haldið verður heimleiðis til Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert